Tæpri 61 milljón úthlutað í styrki

Frá úthlutuninni í Iðnó í dag.
Frá úthlutuninni í Iðnó í dag. mbl.is/Eggert

Úthlutun styrkja menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og útnefning Listhóps Reykjavíkur 2019 fór fram í Iðnó í dag. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð hafði 60.888.000 kr. til úthlutunar til styrkja á sviði menningarmála árið 2019 og veitti vilyrði fyrir 75 styrkjum og samstarfssamningum fyrir þá upphæð. En fyrir eru 23 hópar með eldri samninga í gildi.

Alls var 161 umsókn til meðferðar þar sem sótt var um samtals 209.030.750 krónur. Pawel Bartoszek, formaður ráðsins, gerði grein fyrir úthlutuninni og öðru framlagi borgarinnar til menningarmála.

Hæsta árlega styrkinn hlutu Lókal leiklistarhátíð með þriggja milljóna króna styrk, Pera Óperukollektív og Sýningin Hjólið II sem Myndhöggvarafélag Reykjavíkur framkvæmir með tveggja milljóna króna styrk og félagið Íslensk grafík með eina og hálfa milljón. Aðrir styrkir nema hæst 1 milljón króna en lægst 158 þúsund krónum.

Reykjavíkurborg hefur í fyrsta sinn gert samstarfssamning við Myndhöggvarafélag Reykjavíkur en gerðir voru fimm samstarfssamningar með fyrirvara um samþykki borgarráðs og heimildir í fjárhagsáætlun 2020.

Samningurinn við Myndhöggvarafélagið er til tveggja ára um tvær milljónir á ári. Einnig var gerður tveggja ára samstarfssamningur við Reykjavík Dance Festival um fjórar milljónir á ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert