Þreyttir á bið eftir áhættumati

Hundaræktarfélag Íslands segir hundaeigendur langþreytta að bíða eftir niðurstöðu áhættumats.
Hundaræktarfélag Íslands segir hundaeigendur langþreytta að bíða eftir niðurstöðu áhættumats. mbl.is/Freyja Gylfa

Hundaræktarfélag Íslands krefur Kristján Þór Júlíusson, sjávar- og landbúnaðarráðherra, um svör vegna frestunar á birtingu nýs áhættumats á innflutningi gæludýra til Íslands. Upphaflega var gert ráð fyrir að áhættumatið yrði tilbúið í apríl 2018, en matið hefur enn ekki litið dagsins ljós, að því er segir á heimasíðu félagsins.

Félagið segir hundaeigendur langþreytta að bíða eftir niðurstöðu áhættumats sem var unnið eftir að félagið hefur um árabil óskað eftir skýringum og rökstuðningi íslenskra stjórnvalda fyrir gildandi reglum er varða innflutning hunda og tilheyrandi einangrunarvist dýranna.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi ráðherra málaflokksins, nú þingmaður, ákvað í september 2017 að gera ætti nýtt áhættumat vegna innflutnings gæludýra og átti það að liggja fyrir í apríl á síðasta ári. Kristján Þór sagði í október að vinna stæði enn yfir og að áhættumatið myndi liggja fyrir við árslok 2018.

„Nú er komið fram í miðjan janúar og ekkert bólar á áhættumatinu. Af því tilefni skrifaði félagið bréf til ráðherra og krafðist svara,“ segir á vef Hundaræktarfélagsins.

mbl.is