Þrjóskur með sterkan lífsvilja

Tryggvi Ingólfsson sem féll af hestbaki og lamaðist frá hálsi …
Tryggvi Ingólfsson sem féll af hestbaki og lamaðist frá hálsi getur með þrautseigju og lagni stýrt rafdrifnum hjólastól og unnið í tölvu, en hann notar kinnar og höku til þess að stýra för. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hlýtur að vera sterkur lífsvilji, þrjóska eða þá að það er seigt í mér, ég veit það ekki,“ segir Tryggvi Ingólfsson, 69 ára gamall Rangæingur. Hann var 56 ára og starfaði sem verktaki þegar hann féll af hestbaki og lamaðist frá hálsi vorið 2006. Tryggvi er sá fyrsti á Íslandi sem komist hefur lifandi á sjúkrahús með svo mikinn mænuskaða og lifað lengst Íslendinga með slíkan áverka.

„Ég gerði mér strax grein fyrir því hvað hafði gerst. Ég heyrði brothljóð og svo varð allt svart. Það næsta sem ég man var þegar læknirinn vakti mig á gjörgæslu daginn eftir og sagði mér að ég væri lamaður frá hálsi. Það kom mér ekki á óvart,“ segir Tryggvi sem fékk strax þær upplýsingar að lítil von væri til þess að lömunin gengi til baka. Hann segist hafa haldið lengi í vonina um kraftaverk. Tryggvi var settur í öndunarvél og gat ekkert tjáð sig í byrjun. Hann segir að það hafi verið mikið áfall að geta ekki gert neitt sjálfur. Ekki einu sinni dregið andann. Verst hafi verið að þurfa hjálp við alla hluti. Tryggvi segir að hann hafi ekki beint fengið þá tilfinningu að hann væri fangi í eigin líkama en vissulega megi segja að svo sé. Í byrjun september sama ár var búnaði komið fyrir í hálsi Tryggva sem gerði honum kleift að tjá sig. Fram að því hafði hann reynt að tjá sig með varalestri sem eiginkona hans, Elísabet sá að mestu um að túlka.

„Það var rosalega erfitt að geta ekki tjáð sig. Ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir fjölskylduna og þá sem önnuðust mig. Það var því algjör bylting þegar ég gat loksins tjáð mig. Ég myndi nú ekki mæla neitt sértaklega með svona einangrun en allt hafðist þetta nú,“ segir Tryggvi sem telur að hann hafi ekki farið í gegnum neitt sorgarferli vegna afleiðinga slyssins. Hann hafi ekki fundið til mikillar reiði en vissulega skipti hann skapi eins og hver annar enda væri annað óeðlilegt. Hann segist aldrei hafa dottið niður í depurð frá því að hann slasaðist en tíminn hafi verið erfiður þegar honum hafi verið meinað að komast aftur á hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli þar sem hann hafði búið við gott atlæti í rúm 11 ár.

Tryggvi er mikill hestamaður. Vorið 2006, þegar Tryggvi var 56 …
Tryggvi er mikill hestamaður. Vorið 2006, þegar Tryggvi var 56 ára gamall, féll af hestbaki og lamaðist frá hálsi. Ljósmynd/Aðsend

Tímamótaaðgerð á Íslandi

Rúmu ári eftir að Tryggvi lamaðist fór hann í aðgerð þar sem fjögur rafskaut voru grædd í þind hans til þess að líkja eftir hefðbundinni öndun. Tryggvi var fyrsti Íslendingurinn sem fór í slíka aðgerð. Aðgerðin á Tryggva var sú fyrsta sem gerð var utan Bandaríkjanna en þar höfðu 40 einstaklingar farið í slíka aðgerð. Eftir raföndunaraðgerðina losnaði Tryggvi fljótlega við öndunarvélina.

Hann segir að tíu árum seinna hafi hann fundið að eitthvað var að. Þann 11. desember 2017 var Tryggvi lagður inn á lungnadeild Landspítala, LSH. Þar dvelur hann enn, þrátt fyrir að hann hafi samkvæmt læknisvottorði verið útskriftarfær frá 27. mars 2018 og fullfær um að búa á hjúkrunarheimili.

Í lok febrúar 2018 var staðfest að Tryggvi þyrfti að fara í aðgerð sem gerð var 14. mars þar sem ný rafskaut voru sett í þind hans.

„Tólf dögum síðar var ég útskrifaður af LSH. Undirbúningur að heimkomu minni var í fullum gangi. Daginn áður en ég átti að fara heim fóru læknir og hjúkrunarfræðingur austur á Hvolsvöll til að undirbúa starfsfólkið fyrir komu mína heim. Á miðri leið sinni austur fengu þau símtal frá forstöðukonu Kirkjuhvols þar sem hún tjáði þeim að þau þyrftu ekki að koma. Ástæðan var að 12 starfsmenn á Kirkjuhvoli sögðust ganga út ef ég kæmi heim aftur,“ segir Tryggvi sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hann segir að þetta hafi verið mesta áfallið í öllu ferlinu og hann hafi upplifað mikla höfnun, varnarleysi og reiði. Hann segir að það hafi verið sárt að horfa á áhrifin sem þetta hafði á fjölskylduna.

Fékk ekki fund með starfsfólki

„Ég leit á starfsfólkið á Kirkjuhvoli sem vini mína sem alltaf hugsuðu vel um mig og mér þykir sárt að hafa ekki fengið tækifæri til þess að koma austur og ræða málin. Reyna að leysa þau og biðja fólk afsökunar ef ég hef komið illa fram við það,“ segir Tryggvi sem óskaði í tvígang eftir að fá að koma til fundar við starfsmenn á Kirkjuhvoli en því hafi verið hafnað í bæði skiptin.

„Tilfinningin að fá ekki að fara heim til sín og þurfa að vera fjarri fjölskyldunni um langan tíma er vond. Þegar ég bjó á Kirkjuhvoli gat ég við bestu aðstæður farið sjálfur heim í sérútbúna hjólastólnum mínum. Ég fékk fleiri heimsóknir og var í samskiptum við íbúa Kirkjuhvols sem ég þekkti vel og ég gat farið heim nánast um hverja helgi,“ segir Tryggvi sem nú hefur verið félagslega einangraður á sjúkrahúsi í þrettán mánuði.

Tryggvi hefur tvisvar komist út undir bert loft, eins og hann orðar það, frá því í desember 2017. Hann segir hjúkrunarnema hafa farið með sig í útsýnisferð upp á þyrlupall Landspítalans annars vegar og hins vegar hafi hjúkrunarfræðingur boðist til þess að fara með honum á Selfoss til dóttur hans þar sem öll fjölskyldan var samankomin. Tryggvi á fimm börn og níu barnabörn sem flest búa á Suðurlandi.

„Starfsfólk lungnadeildar LSH hefur reynst mér mjög vel, ekki síst síðustu níu mánuðina þegar ég fékk ekki að fara heim þrátt fyrir að ég væri fær um það. Þeir mánuðir hafa verið mér erfiðir,“ segir Tryggvi sem eygir nú von um að komast af LSH og nær fjölskyldunni. Hjúkrunarheimilið Lundur á Hellu hefur fengið leyfi til þess að auglýsa eftir starfsfólki svo Tryggvi geti flutt þangað.

„Það mun breyta miklu og mér líst vel á að fara á Lund en það er óskaplega sárt að fá ekki að fara á Hvolsvöll þar sem ég hef búið alla mína ævi,“ segir Tryggvi sem dvelja mun áfram á sjúkrahúsi þar til hann kemst á Lund.

Ljósmyndasýning með syninum

Tryggvi segist hafa nóg að gera fram að hádegi í þjálfun, böðun og þess háttar. Eftir hádegi verji hann tímanum í tölvunni, flakki um á netinu, lesi blöðin og fylgist með Manchester United. Sem fyrrverandi verktaki finnst honum gaman að fylgjast með verklegum framkvæmdum. Tryggvi hefur í gegnum tíðina tekið mikið af ljósmyndum og hefur fengið aðstoð við að koma þeim í tölvutækt form. Það gefur honum mikið að vinna myndirnar og deila með öðrum. Tryggvi segir að hann og sonur hans hafi haldið vel heppnaða ljósmyndasýningu á Hvolsvelli fyrir tveimur árum. Hann segist ekki reikna með annarri í sýningu í bráð en það sé aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni.

Í legunni á LSH fékk Tryggvi legusár og getur af þeim sökum ekki setið eins lengi í sérútbúna stólnum og hann vill. Á stól Tryggva er stýripinni sem hann notar til að stjórna aðgerðum í tölvunni. Hökuna notar hann til þess að stjórna stýripinnanum.

Tryggvi segir að fjölskylda sín hafi stutt hann vel.
Tryggvi segir að fjölskylda sín hafi stutt hann vel. Ljósmynd/Aðsend

Tryggvi segir að fjölskylda sín hafi stutt hann vel. Hann hafi farið eins oft heim til sín og hægt var þegar hann var á Hvolsvelli og þegar hann komst ekki heim hafi Elísabet komið til hans á Kirkjuhvol.

„Nema á þriðjudögum, við gerðum með okkur samkomulag um að taka frí frá hvort öðru á þriðjudögum,“ segir hann brosandi.

Tryggvi á sér enn þann draum að búa á Hvolsvelli og er fullur tilhlökkunar að komast nær fjölskyldu sinni eftir 13 mánaða fjarveru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »