„Þyngra en tárum taki“

„Það var mér mikið tilhlökkunarefni að fá loks tækifæri til …
„Það var mér mikið tilhlökkunarefni að fá loks tækifæri til að flytja fyrir landa mína þetta verk sem Jón samdi handa mér og vonbrigðin eðlilega þeim mun meiri að þær áætlanir gangi ekki eftir,“ segir Freyr Sigurjónsson flautuleikari.

„Samkvæmt auglýstri starfsáætlun Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir veturinn 2018-19 stóð til að ég myndi koma til Íslands og frumflytja flautukonsert Jóns Ásgeirssonar með SÍ á tónleikum sveitarinnar 24. janúar nk. Því miður getur ekki orðið af því. Ástæðan er sú að ég greindist nýverið með krabbamein og er þessa dagana í mjög strangri lyfja- og geislameðferð,“ segir í fréttatilkynningu sem Freyr Sigurjónsson flautuleikari hefur sent frá sér. 

„Mér þykir þetta þyngra en tárum taki, því þessi konsert hefur verið hluti af lífi mínu í rúm 18 ár og ferlið við að fá hann fluttan með SÍ bæði langt og strangt. Það var mér mikið tilhlökkunarefni að fá loks tækifæri til að flytja fyrir landa mína þetta verk sem Jón samdi handa mér og vonbrigðin eðlilega þeim mun meiri að þær áætlanir gangi ekki eftir.

Ég er kollegum mínum hér í Bilbao Sinfóníuhljómsveitinni ákaflega þakklátur, því þeir gáfu vinnu sína þegar konsertinn var hljóðritaður í konserthúsinu í Bilbao föstudaginn 14. desember sl. undir stjórn Eriks Nielsen aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar.“

Freyr lauk framhaldsnámi frá Royal Northern College of Music í Manchester 1982. Það sama ár réð hann sig sem fyrsti flautuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar í Bilbao á Spáni og hefur gegnt þeirri stöðu síðan. Hann hefur leikið einleik með hljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu, til dæmis með Útvarpshljómsveitinni í Madrid og kammersveitinni Moscow Virtuosi. Hann frumflutti flautukonsert Carls Nielsen á Spáni með Sinfóníuhljómsveitinni í Bilbao. 

Jón Ásgeirsson, tónskáld og prófessor emeritus, samdi flautukonsertinn árið 2000. Samkvæmt upplýsingum frá SÍ er um hrífandi tónsmíð að ræða í þjóðlegum stíl. Jón fagnaði sem kunnugt er níræðisafmæli sínu 11. október á síðasta ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »