Tveggja herbergja íbúðir á 14-16 milljónir

Elliði Vignisson, bæjarstóri í Ölfusi, og Jón Valur Smárason, eigandi …
Elliði Vignisson, bæjarstóri í Ölfusi, og Jón Valur Smárason, eigandi Pró húsa. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið Pró hús ehf. ætlar að byggja 15 íbúða fjölbýlishús í Þorlákshöfn að Sambyggð 14a. Framkvæmdir hefjast í apríl og stefnt er á að afhenda íbúðirnar í júlí/ágúst 2019. Í fréttatilkynningu kemur fram að íbúðirnar verði ódýrar.

Verksmiðjan sem hannar húsin er búin að framleiða sambærileg hús í yfir 20 ár, flest seld og uppsett í Rúmeníu en einnig í Frakklandi, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð og fleiri löndum. Erlendir hönnuðir í samvinnu við íslenska arkitekta og verkfræðinga sjá um hönnun fyrir Pró hús.

Fram kemur í fréttatilkynningu að raunhæft sé að geta boðið tveggja herbergja rúmlega 50 fermetra íbúð á 14-16 milljónir. Enn fremur segir að íbúðirnar séu tilbúnar með tækjum og innréttingum. Verð geti staðist ef sveitarfélög séu tilbúin að stilla verði lóða og gjalda í hóf.

„Sveitarfélög eiga ekki að standa í lóðabraski“

„Húsnæði er meðal grunnþarfa. Með rökum má halda því fram að lítill munur sé á húsnæðisskorti og fæðuskorti. Við sem stjórnum sveitarfélögum berum því mikla ábyrgð og við eigum að leita leiða til að tryggja framboð af lóðum, og eftir atvikum húsnæði, á viðráðanlegu verði rétt eins og við myndum gera með fæðu ef um væri að ræða fæðuskort.  Sveitarfélög eiga ekki að standa í lóðabraski og alls ekki að sætta sig við framboðsvanda og okurverð á þessum nauðsynjum,“ er haft eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Ölfusi.

Hann segir að hlutverk sveitarfélaga sé að veita þjónustu og hluti af því sé að eiga gott framboð af byggingalóðum. Lóðirnar eigi að vera á kostnaðarverði því öll álagning sé í raun álagning sem leggist beint á íbúa.

„Við bíðum nú spennt eftir útspili ríkisstjórnarinnar hvað húsnæðismál varðar og vonum einlæglega að það verði í þá átt sem hér frá greinir.  Sem sagt að leitað verði leiða til að bjóða gott húsnæði á hagstæðu verði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert