Áreitti og sendi „ógeðslegar typpamyndir“

Maðurinn spurði hversu mikið hann þyrfti að greiða fyrir kynlíf …
Maðurinn spurði hversu mikið hann þyrfti að greiða fyrir kynlíf með konunni. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur staðfest þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm yfir karlmanni fyrir að áreita konu með dónalegum smáskilaboðum. Maðurinn, sem er á fertugsaldri, bauð konunni meðal annars pening í skiptum fyrir kynlíf og sendi henni þrjár typpamyndir.

Maðurinn sendi konunni skilaboð á ensku í september 2015. Þar óskaði hann eftir því að greiða henni fyrir kynlíf, spurði hversu mikið hann þyrfti að borga og sendi henni typpamyndir.

Skilaboðasendingar mannsins héldu áfram þrátt fyrir að konan svaraði því til að hann væri að senda skilaboðin í rangt númer. Fyrir dómi kvaðst maðurinn hafa ætlað að senda skilaboðin til konu sem væri tantra nuddari.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í desember 2017 að skilaboðin hafi sært blygðunarsemi konunnar og valdið henni ótta. Hún hafi haldið að einhver vinkona hennar væri að senda henni skilaboð í gríni, þegar fyrstu skilaboðin bárust.

Þegar hún hefði vaknað morguninn eftir hefði verið búið að senda henni þrjár „ógeðslegar typpamyndir“, eins og segir í dómi. Þá áttaði konan sig strax á því að ekki var um grín að ræða.

Maðurinn neitaði sök en kannaðist við að hafa sent öll skilaboðin. Hann sagði að um daður hefði verið að ræða og að hann hafi ekki verið að heita greiðslu fyrir vændi. Enn fremur sagðist hann hafa verið undir áfrýjum svefnlyfja sem yllu því stundum að minni hans yrði gloppótt og hann gerði hluti sem hann myndi alla jafna ekki gera.

Dómurinn telur ótvírætt af skilaboðunum að maðurinn hafi ætlað sér að greiða fyrir vændi og er hann sakfelldur fyrir að brjóta gegn ákvæði hegningalaga um vændi. Maðurinn er dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða konunni 250.000 krónur í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert