Fleiri hjónabönd og færri skilnaðir

Brúðkaupum fjölgaði lítillega á síðasta ári.
Brúðkaupum fjölgaði lítillega á síðasta ári. AFP

Alls gengu 3.979 einstaklingar í hjónaband á síðasta ári en 1.276 skildu, samkvæmt skráningu í Þjóðskrá Íslands.

Hjónaböndin voru örlítið fleiri en árið 2017 þegar þau voru 3.941 talsins. Skilnaðir í fyrra voru um 100 færri en árið áður þegar þeir voru 1.375.

Í desember stofnuðu 352 einstaklingar til hjúskapar en 90 einstaklingar skildu. Af þeim 352 sem stofnuðu til hjúskapar giftu 176 sig í þjóðkirkjunni (50%), 136 gengu í hjúskap hjá sýslumanni (38,6%), 38 einstaklingar gengu í hjúskap í trúfélagi utan þjóðkirkju (10,8%) og tveir giftu sig erlendis.

Allir skilnaðirnir í desember voru framkvæmdir hjá sýslumanni.

mbl.is