Flestar tegundir úrkomu í boði

Kort/mbl.is

Veður næstu tveggja sólarhringja verður ansi breytilegt og búast má við að flestar úrkomutegundir sem í boði eru komi við sögu. Í dag er gert ráð fyrir éljum ansi víða en við suður- og suðvesturströndina verður úrkoman frekar skúrakennd, segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Bætir í vind og verður rigning um landið vestanvert í fyrramálið en undir hádegi snýst vindur til suðvestanáttar og kólnar hratt og breytist úrkoman líklega í slyddu eða snjókomu. Síðdegis verður svo úrkoman komin yfir í él. Líklega verða skilin ekki komin austur af landinu fyrr en snemma á sunnudagsmorgun.

Áfram éljagangur sunnan og vestan til, en léttir á til á Norðausturlandi, ásamt því að það frystir um mestallt land. „Svona umhleypingum fylgir oft hálka, jafnt á vegum sem stígum svo þeir sem stefna að ferðalögum og útivist um helgina ættu að hafa það í huga,“ segir enn fremur á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustlægari í nótt og hvessir, 10-18 í fyrramálið og rigning eða slydda V-til. Snýst í suðvestan 8-15 með slyddu eða snjókomu um hádegi og síðar éljum, fyrst V-til á landinu. Hiti 0 til 5 stig syðst, en frost annars 1 til 12 stig, kaldast í innsveitum NA-til. Víða vægt frost seint á morgun.

Á laugardag:
Suðaustan 10-18 m/s, rigning eða slydda og hiti 0 til 5 stig, en þurrt NA-til og vægt frost. Suðvestlægari síðdegis með snjókomu eða slyddu, en síðar éljum og kólnandi veðri, fyrst SV-til. 

Á sunnudag:
Suðvestan 8-18 m/s og él, en léttskýjað á N- og A-landi, hvassast við SV-ströndina. Frost 0 til 8 stig, kaldast NA-til. Vaxandi suðaustanátt og snjókoma, en síðar rigning S- og V-lands um kvöldið og hlýnar. 

Á mánudag:
Hvöss suðaustlæg átt og rigning eða slydda framan af degi og hiti 0 til 5 stig, en lægir síðan og rofar til og kólnar, fyrst V-til. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Austlæg eða breytileg átt með snjókomu austast um tíma, en annars stöku éljum og köldu veðri. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir vaxandi suðlægari átt, hlánar vestan til, en dregur úr frosti annars staðar. Þurrt um landið N- og A-vert, en annars rigning eða slydda á köflum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert