Harmar ákvörðun ráðuneytisins

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Eggert

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar harmar ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins um að hafna því að greiða fyrir viðbótarrými í Drafnarhúsi fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Það er fram á að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Fjölskylduráð lýsti í ágúst í fyrra yfir áhyggjum sínum af löngum biðlistum fyrir dagdvöl fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Starfshópur var stofnaður til að finna húsnæði í Hafnarfirði fyrir dagdvöl og skilaði hann af sér niðurstöðum í nóvember, að því er kemur fram í fundargerð.

Ákveðið var að taka á leigu rými í Drafnarhúsinu þar sem nú þegar er rekin dagdvöl fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Í rýminu yrði pláss fyrir 10 til 12 einstaklinga.

Alls eru 163 á biðlista eftir dagdvöl á höfuðborgarsvæðinu og 26 af þeim bíða eingöngu eftir því að komast inn í Drafnarhús.

Fjölskylduráð sendi heilbrigðisráðuneytinu bréf í nóvember þar sem látið var vita af því að Hafnarfjarðarbær væri tilbúinn með rýmið og óskað var eftir fjármagni sem ríkið átti að greiða. Svar barst í desember þar sem því var hafnað.

„Ráðuneytið hefur ríkan skilning á erindinu en er þó ávallt bundið af fjárlögum og hefur ekki tök á að fjölga rýmum nema fjárveiting slíks liggi fyrir,“ segir í svarinu.

mbl.is