Lítið um norðurljós í vetur og mörgum ferðum aflýst

Erlendir ferðamenn sækjast margir eftir því að sjá hin rómuðu …
Erlendir ferðamenn sækjast margir eftir því að sjá hin rómuðu norðurljós í ferð sinni til Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðaþjónustufyrirtæki hafa orðið að fella niður fjölda norðurljósaferða í vetur eða þá að ferðir hafa reynst árangurslitlar þegar horft er til himins að kvöldlagi. Virknin á norðurhveli hefur ekki verið mikil í vetur og tíðarfarið verið óhagstætt. Þó sást til norðurljósa víða um land í fyrrakvöld en spár næstu daga gera ráð fyrir mjög lítilli virkni.

Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, segir desember og janúar almennt ekki virkasta tímabilið. Virkni norðurljósa sé háð sveiflum frá hausti og til vors, þegar dag tekur að lengja á ný. Síðasta haust hafi verið ágætt.

„Annars erum við að sigla inn í rólegan tíma í virkni sólarinnar. Þetta ár, 2020 og 2021 ættu að vera frekar róleg, það verður minna um öfluga, litríka norðurljósastorma sem allir hafa glaðst yfir undanfarin ár. Það er náttúruleg og eðlileg sveifla. Norðurljósin hverfa ekkert en þau verða bara aðeins veikari,“ segir Sævar Helgi.

Hann segir upplifun fólks undanfarnar vikur, eða frá byrjun desember, vera hefðbundna fyrir lágmarksvirkni norðurljósa.

„Síðan hefur viðrað illa og sett strik í reikninginn. Skýin að undanförnu hafa verið ansi þykk.“

Sævar Helgi segir spána framundan ekki gefa góð tækifæri til að sjá norðurljós. Núna sé ekkert svæði á sólinni að dæla til okkar hraðfleygum sólvindi en það ætti að breytast í lok janúar.

Norðurljósaferðir hafa verið eitt helsta verkefni rútufyrirtækja yfir veturinn. Þórir Garðarsson hjá Gray Line segir vertíðina hingað til hafa verið heldur lélega. Búið sé að afbóka margar ferðir í vetur en það hafi verið kærkomið að sjá loksins einhverja ljósasýningu á himni í fyrrakvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert