Nauðungarvistun litlar skorður settar

Lögræðislögin hafa lengi verið Þórhildi Sunnu ofarlega í huga.
Lögræðislögin hafa lengi verið Þórhildi Sunnu ofarlega í huga. mbl.is/​Hari

Sérfræðinefnd Evrópuráðsins hefur ítrekað farið fram á endurbætur á lögræðislögum Íslands, en það er ekkert í íslenskum lögum sem kemur í veg fyrir að saga Aldísar Schram, dóttur Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem sakar föður sinn um að hafa misnotað stöðu sína til þess að fá Aldísi nauðungarvistaða á geðdeild, endurtaki sig.

Þingmaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, bendir á þetta í pistli á vef Stundarinnar.

„Í löndunum í kringum okkur eru miklu strangari reglur í kringum þetta,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is, en lögræðislögin hafa verið henni ofarlega í huga síðan hún settist á þing og flutti hún meðal annars jómfrúarræðu sína á Alþingi um lögin.

Fjórum sinnum bent á að herða lögin

Sérfræðinefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu (CPT-nefndin) benti fyrst á annmarka íslensku lögræðislaganna árið 1994 og hefur gert þrisvar sinnum síðan þá.

„Það hefur ekki verið brugðist við þeim ábendingum sem snúa að nauðungarvistunum, né heldur að þeim sem snúa að þvingaðri lyfjameðferð, sem lýtur nánast engum takmörkunum á Íslandi. Eftir að sýslumaður hefur samþykkt nauðungarvistun getur læknir á geðdeild ákveðið að beita þvingaðri meðferð,“ segir Þórhildur Sunna.

Það eigi bæði við um nauðungarvistun og þvingandi lyfjameðferð að þær séu ekki notaðar sem lokaúrræði, heldur almennt úrræði sem einn læknir geti tekið ákvörðun um.

Þörf á eftirfylgni með notkun úrræða

„Eina lagalega skilyrðið fyrir nauðungarvistun á Íslandi er að læknir - bara einhver læknir - ákveði að viðkomandi sé […] haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms,‘“ skrifar Þórhildur Sunna í pistli sínum.

Hún segir auðvitað þurfa sérstakar reglur í kringum fólk sem hugsanlega sé í geðrofi og sjálfu sér og öðrum hættulegt. „En það verður líka að vera til kerfi sem fylgist með því að lögin séu ekki misnotuð og að úrræði séu ekki notuð að óþörfu.“

Staða þeirra sem séu látnir sæta nauðungarvistun sé gríðarlega veik og réttur þeirra til að bera hönd fyrir höfuð sér mjög takmarkaður.

Þórhildur Sunna hefur í tvígang lagt fram þingsályktunartillögu um heildarendurskoðun á lögræðislögum, nú síðast í haust. „Viðbrögð hafa verið ágæt, ég hef ekki fundið fyrir neikvæðni en það hefur gengið erfiðlega að fá meðflutningsmenn.“

„Ég held ekki að það sé af því fólk sé á móti þessu, heldur að það skilji ekki þörfina fyrir þetta. Það sem ég vona er að skilningurinn aukist í kringum umfjöllunina um þá meðferð sem Aldís þurfti að sæta,“ segir Þórhildur Sunna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert