Réðst á mann með skefti af álskóflu

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands. mbl.is/Gúna

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 275 þúsund króna í miskabætur fyrir líkamsárás.

Hann var ákærður fyrir að hafa á skemmtistað síðastliðið sumar slegið annan mann með tveimur höggum í líkama og hönd með skefti af álskóflu með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsl og bólgu á handarbak hægri handar, eymsl og roða á vinstri olnboga og eymsl og roða á síðu vinstra megin.

Fram kemur í dóminum að maðurinn hafi verið mjög ölvaður eftir að hafa fallið á nokkurra mánaða bindindi eftir áfengismeðferð. Maðurinn viðurkenndi sakargiftir.

Hann á að baki talsverðan sakaferil sem nær aftur til ársins 2007 og var hann m.a. dæmdur fyrir líkamsárás árið 2015.

Maðurinn var dæmdur til að greiða sakarkostnað upp á rúmar 420 þúsund krónur. Einnig var honum gert að greiða málskostnað mannsins sem hann réðst á upp á rúmar 100 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert