Skora á ráðuneyti að bregðast við

Um 40 sjúkrarými standa auð á Landspítala vegna manneklu hjúkrunarfræðinga.
Um 40 sjúkrarými standa auð á Landspítala vegna manneklu hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hjúkrunarráð Landspítala skorar á heilbrigðisyfirvöld að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Þetta kemur fram í áskorun sem hjúkrunarráð sendi heilbrigðisráðuneyti í gær.

Þar kemur fram að skortur á hjúkrunarfræðingum sé alvarlegur og hafi neikvæð áhrif víða, meðal annars standi um 40 sjúkrarými auð á Landspítala vegna manneklu í hjúkrun.

„Á sama tíma bíður fjöldi fólks á bráðamóttöku eftir innlögn á Landspítala og hjúkrunarráð ítrekar að við núverandi ástand er hvorki mögulegt að tryggja öryggi sjúklinga né starfsfólks,“ kemur enn fremur fram.

Álagið á hjúkrunarfræðinga á landspítala sé mikið og ljóst að þeir séu verulega útsettir fyrir alvarlegri streitu í starfi. Þeir geri kröfu um að starfa í öruggu og heilsueflandi starfsumhverfi þar sem mögulegt sé að tryggja sjúklingum örugga, faglega og framúrskarandi þjónustu.

Bent er á að í úttekt embættis landlæknis sé tekið fram að þrátt fyrir mikið álag fari enn fram öflugt gæðastarf. Það gefur, að mati hjúkrunarráðs, vísbendingu um þann gríðarlega mannauð sem hjúkrunarfræðingar á Landspítala eru.

„Hjúkrunarráð Landspítala skorar á heilbrigðisráðuneyti að bregðast strax við þeim fjölmörgu ábendingum sem hafa verið sendar, t.d. frá embætti landlæknis, Félagi íslenska hjúkrunarfræðinga, framkvæmdastjórn Landspítala og hjúkrunarráði Landspítala, og nýta þær til þess að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Jákvætt starfsumhverfi er einn af þeim lykilþáttum sem gera starfsfólki kleift að upplifa starfsánægju,“ kemur fram í lok áskorunninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert