Tólf aðstoðarsáttasemjarar tilnefndir

Mik­il samn­inga­törn stendur nú yfir, en rúm­lega 80 kjara­samn­ing­ar losnuðu …
Mik­il samn­inga­törn stendur nú yfir, en rúm­lega 80 kjara­samn­ing­ar losnuðu um ára­mót­in og tvö­falt fleiri munu losna í lok mars. mbl.is/​Hari

Ríkissáttasemjari hefur tilnefnt hóp aðstoðarsáttasemjara sem koma til með að aðstoða ríkissáttasemjara og aðstoðarríkissáttasemjara, sem aðeins hefur verið einn hingað til, í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir.

Tólf manns skipa hópinn og er hann tilnefndur á á grundvelli heimildar í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem segir að ríkissáttasemjari geti tilnefnt aðstoðarsáttasemjara til að aðstoða sig við lausn vinnudeilu eða vinna sjálfstætt að lausn einstakrar vinnudeilu.  

Í frétt á heimasíðu ríkissáttasemjara segir að framvegis mun einn eða fleiri úr hópnum vera kallaður til aðstoðar í hverju sáttamáli ásamt ríkissáttasemjara. „Markmið breytinganna er að bæta þjónustu embættisins við aðila vinnumarkaðarins, með því að efla sáttamiðlun og stuðla að aukinni skilvirkni embættisins við kjarasamningagerðina,“ segir í frétt ríkissáttasemjara.

Mik­il samn­inga­törn stendur nú yfir, en rúm­lega 80 kjara­samn­ing­ar losnuðu um ára­mót­in og tvö­falt fleiri munu losna í lok mars. Þá hefur verið boðað til fund­ar hjá rík­is­sátta­semj­ara á mánu­dag­inn í í kjaraviðræðum Efl­ing­ar, VR, Verka­lýðsfé­lags Akra­ness og Verka­lýðsfé­lags Grinda­vík­ur við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins.

Haft er eftir Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara að um sé að ræða öfluga einstaklinga sem hafa mikla reynslu í farteskinu ýmist á sviði sáttamiðlunar, samningatækni, ráðgjafar, vinnuréttar eða stjórnunar sem án efa getur nýst vel við samningaborðið. „Hópurinn hefur hist í tvígang og setið námskeið hjá okkur til að undirbúa sig undir verkefnið. Ég tel að einstaklega vel hafi tekist til við að manna þennan hóp og hlakka mikið til að vinna með þeim,“ segir Bryndís.

Hóp aðstoðarsáttasemjara skipa:

Aðalsteinn Leifsson, framkvæmdastjóri hjá EFTA

Ástráður Haraldsson, héraðsdómari

Bergþóra Ingólfsdóttir, héraðsdómari

Elín Blöndal, lögfræðingur og markþjálfi

Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara

Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur og MA í sáttamiðlun

Helga Jónsdóttir, lögfræðingur

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari

Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur og ráðgjafi

Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands

Magnús Jónsson, fyrrverandi Veðurstofustjóri

Þórður S. Gunnarsson, lögmaður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert