Tvær líkamsárásir á menntaskólaballi

Margmenni var á menntaskólaballi í reiðhöllinni í Víðidal í gærkvöldi. …
Margmenni var á menntaskólaballi í reiðhöllinni í Víðidal í gærkvöldi. Fimm mál komu til kasta lögreglu, sem þykir óvenjulegt. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm lögreglumál komu upp á fjölmennri skemmtun sem Nemendafélag Menntaskólans í Kópavogi stóð fyrir í Reiðhöllinni í Víðidal í gærkvöldi.

Tvær líkamsárásir eru til rannsóknar hjá lögreglu, en enginn er í haldi vegna þeirra og áverkar þeirra sem fyrir þeim urðu eru minni háttar, samkvæmt Kristjáni Ólafi Guðnasyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Margir vinsælir listamenn tróðu upp á skemmtun NMK í gærkvöldi.
Margir vinsælir listamenn tróðu upp á skemmtun NMK í gærkvöldi.

Að sögn Kristjáns var leyfi fyrir 1.000 manns á skólaskemmtuninni, svokallaðri Myrkramessu: 101 Rave, þar sem margir vinsælir listamenn tróðu upp, til dæmis söngkonan Young Karin og rappararnir Joey Christ, Sturla Atlas, Birnir og Flóni.

Skemmtunin stóð yfir frá 22 til 1 í gærkvöldi, samkvæmt augýstri dagskrá.

Auk líkamsárásanna tveggja komu upp þrjú mál tengd ölvun, en ölvun var þó óheimil á svæðinu, samkvæmt lýsingu viðburðarins. Kristján segir ekki algengt að svona mörg mál komi til kasta lögreglu á menntaskólaskemmtunum.

„Þetta er eitthvað sem þarf að skoða, hvað það var sem að gekk á þarna og hvað er hægt að gera til að stemma stigu við þessu,“ segir Kristján Ólafur.

mbl.is