Umræðan drifin áfram af tilfinningu

Bjarni Benediktsson á fundinum í Ráðherrabústaðnum í dag.
Bjarni Benediktsson á fundinum í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra er ekki kunnugt um að nokkrum stað hafi verið gerður jafn ítarlegur gagnagrunnur um tekjur íbúa en nú er til um Íslendinga. Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi í ráðherrabústaðnum í dag vegna nýs vefs þar sem hægt er að skoða tekjuþróun Íslendinga 1991 til 2017.

„Nú er hægt að skoða hvernig samfélag Ísland er,“ sagði fjármálaráðherra og vísaði til þess að gögn gagnagrunnsins sýna fram á talsverðan hreyfanleika einstaklinga milli tekjutíunda.

Í samtali við mbl.is segist Bjarni vona að gagnagrunurinn geti orðið til gagns sem grunnur að umræðu um raunverulega stöðu ólíkra tekjuhópa.

„Við getum þá fjarlægst umræðu sem byggist á því að menn hafi tilfinningu um að hlutirnir séu svona og hinsegin, og skoðað bara og flett því upp nákvæmlega hver staðan er. Hverjar eru staðreyndir máls um einstaka hópa,“ segir hann.

Bæta kjaraviðræður

„Ég geti ekki betur séð en að við höfum nú fengið tól í hendurnar sem mun styrkja kjarasamningsgerð til framtíðar,“ segir fjármálaráðherra sem tekur þó fram að verkefnið hafi ekki verið hrint í framkvæmd vegna núverandi kjaraviðræðna.

„Ég held að við getum lært af þessu hverjir hafa í raun og veru náð að auka ráðstöfunartekjur sínar mest,“ svarar Bjarni spurður um áhrif gagnagrunnsins á stjórnmálaumræðuna. Hann bætir við að ekki síður er þetta til þess fallið að varpa ljósi á þá hópa sem sitja eftir, en bendir á að tölurnar sýna fram á að öllum hópum hefur tekist að bæta kjör sín að einhverju marki.

„Mér finnst það mjög ánægjulegt að sjá.“

Aukningin misjöfn

„Því er ekki að leyna að það [aukning ráðstöfunartekna] er mjög misjafnt. Við sjáum til dæmis að þeir sem eru komnir á lífeyrisaldur hafa mjög verið, að jafnaði, að auka ráðstöfunartekjur sínar undanfarin ár,“ útskýrir ráðherrann spurður út í dæmi sem sýnd voru á blaðamannafundinum, en þar kom fram að kjör þeirra á lífeyrisaldri hefði batnað mun meira síðustu ár en einstæðra kvenna.

Spurður hvort hann telji upplýsingarnar til þess fallnar að þroska stjórnmálaumræðuna, segist hann vona að svo verði.

„Mér finnst almennt að umræðan sé um of drifin áfram af tilfinningu en ekki staðreyndum. Hérna erum við með einstæðan gagnagrunn sem byggir á rauntölum og leyfi mér að vona að það leggi traustari grunn að samtalinu um kjaraþróun í landinu.“

Hann segir að einhverju marki megi segja að stjórnvöld hljóta hafa það sem megin markmið að auka ráðstöfunartekjur fólks og að gagnagrunnurinn sé ákveðið mælitæki hvað það varðar.

mbl.is