Vatnsmýri verði 102 Reykjavík

Borgarráð mun fara þess á leit við póstnúmeranefnd Íslandspósts að …
Borgarráð mun fara þess á leit við póstnúmeranefnd Íslandspósts að Vatnsmýri fái póstnúmerið 102 Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í gær tillögu borgarstjóra um að þess verði farið á leit við póstnúmeranefnd Íslandspósts að Vatnsmýri fái póstnúmerið 102, en lagt var til að sá hluti póstnúmers 101 sem er sunnan Hringbrautar breytist í póstnúmerið 102 en mörk við 107 og 105 haldist óbreytt.

Fimm umsagnir bárust vegna þessara fyrirhuguðu breytinga, fjórar jákvæðar, frá Knattspyrnufélaginu Val og uppbyggingaraðilum á Hlíðarenda, en ein afar neikvæð, frá íbúasamtökunum í Skerjafirði. Þau mótmæla áformunum harðlega.

Í umsögn aðalfundar félagsins til borgarráðs segir að „yfirgnæfandi fjöldi Skerfirðinga“ vilji halda póstnúmeri 101, enda sé meðal annars mikið undir fyrir íbúa hvað varðar húsnæðisverð, en Skerfirðingar telja að það eitt að breyta póstnúmerinu sunnan Hringbrautar hafi áhrif til lækkunar húsnæðisverðs.

Valsmenn og aðrir framkvæmdaaðilar á Hlíðarenda lýstu sig jákvæða í …
Valsmenn og aðrir framkvæmdaaðilar á Hlíðarenda lýstu sig jákvæða í garð breytinganna. mbl.is/Eggert

Þá telja íbúasamtökin, sem bera heitið Prýðisfélagið Skjöldur, umræðu um breytingu á póstnúmeri algjörlega ótímabæra enda sé flugvöllurinn í Vatnsmýri ekki að fara í fyrirsjáanlegri framtíð. „Við höfnum með öllu að tilheyra einhverju klofnu hverfi,“ segir í umsögn íbúasamtakanna.

Í bókun Mörtu Guðjónsdóttur borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vigdísar Hauksdóttur áheyrnarfulltrúa Miðflokksins segir að marklaust sé að kalla eftir sjónarmiðum íbúa ef ekki sé tekið tillit til þeirra.

„Hægðarleikur hefði verið að koma til móts við alla aðila með því að breyta póstnúmerinu í 102 á Hlíðarenda og leyfa póstnúmerinu í Skerjafirði og vestan Njarðargötu að halda sér meðan flugvöllurinn er enn í Vatnsmýrinni,“ segir í bókun þeirra og þetta mál sagt sanna „eina ferðina enn“ að allt tal meirihlutaflokkanna um íbúalýðræði væri „inntantómt orðagjálfur á tyllidögum“.

Fulltrúar meirihlutans létu bóka að í ljósi umfangs póstnúmers 101 færi vel á því að póstnúmer 102 yrði stofnað. Þá myndi 102 Reykjavík hýsa Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og alla þá þekkingar- og vísindastarfsemi sem nú byggist upp í Vatnsmýrinni.

Sama tillaga áður samþykkt

Þessi sama tillaga var áður samþykkt í borgarráði árið 2015, en hefur ekki enn orðið að veruleika. Eftir að það kom upp var fjallað um það hér á mbl.is að eitt hús væri í 102 Reykjavík, nefnilega póstmiðstöð Póstsins við Stórhöfða 32.

Það hús er þó skráð í póstnúmer 110 Reykjavík í dag, samkvæmt skráningu á vefnum Já.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert