Ég er aftur lifandi!

Hjördís Árnadóttir.
Hjördís Árnadóttir. Haraldur Jónasson/Hari

Hjördís Árnadóttir vaknaði slöpp að morgni 17. júní 2011 og um kvöldið var henni vart hugað líf. Meinið var svæsin sýklasótt út frá sýkingu í eggjastokk sem þurfti að fjarlægja. Leiðin til heilsu var löng og ströng og tveimur mánuðum eftir áfallið þurfti að fjarlægja báða fætur Hjördísar neðan við miðjan sköflung vegna dreps. Við henni blasti nýtt líf og það er fyrst núna í vetur að Hjördís hefur náð að vinna að mestu úr áfallinu og getur farið að horfa fram á veginn.

„Ég ætlaði að fara með börnin í bæinn en var orðin lasin, þannig að pabbi og systir mín fóru með þau í staðinn en ég bjó á þessum tíma tímabundið heima hjá foreldrum mínum. Mér hrakaði jafnt og þétt yfir daginn, var orðin mjög máttfarin og þegar ég gat ekki einu sinni haldið á brauðsneið um kvöldið tók faðir minn af skarið og hringdi á sjúkrabíl,“ segir Hjördís.

Hjördís var með fullri meðvitund en man eigi að síður ekkert eftir þessum degi sem er væntanlega afleiðing af svæfingunni sem hún fékk á spítalanum. Hún getur haft afturvirk áhrif. Fyrir lá að Hjördís var fárveik og útlitið var raunar svo slæmt að foreldrar hennar og systkini fengu símtal um nóttina þess efnis að þau ættu að drífa sig upp á spítala til að kveðja hana. „Ekki var ljóst hvort ég myndi lifa en kæmi ég aftur vissu læknarnir ekki hversu mikið yrði eftir af mér,“ segir Hjördís. 

Leiddi til sýklasóttarlosts

Um hádegi daginn eftir fannst loksins meinið, heiftarleg sýking í öðrum eggjastokknum sem hafði leitt til svæsinnar sýklasóttar sem hér um bil dró Hjördísi til dauða. Eggjastokkurinn var fjarlægður þegar í stað. Hjördísi var haldið sofandi í öndunarvél í um tvær vikur. Það hjálpaði til að Hjördís var í góðu líkamlegu formi, þannig að líkaminn hafði „nóg að éta“, eins og hún orðar það sjálf. „Ég man vitaskuld ekki neitt frá þessum tíma en löngu seinna fékk ég minningu um að ég hefði dáið og ekki komist út úr líkamanum. Það var mikið sjokk. Svona ferðalag er fullt af litbrigðum.“

Hjördís vaknaði með sýklasóttarlost og gat sig hvergi hrært; reyndi að tjá sig en kom ekki upp orði, svo máttfarin var hún. Öll vöðvastarfsemi lá niðri, auk þess sem drep var komið í fingur, tær og nef. Allt var þetta biksvart á litinn og óhugnanlegt á að líta. Þess utan var Hjördís lengi að jafna sig eftir öndunarvélina.

„Ég var lengi að vinna úr þessu,“ segir hún. „Þegar ég loksins náði áttum leið mér eins og ég væri 170 ára gömul. Var ekki lengur sama manneskjan. Eftir þetta skil ég vel hvernig það er að vera ósjálfbjarga gamalmenni og upp á aðra komin.“

Ekki bætti úr skák að Hjördís var með mikla spítala- og stofnanafóbíu og það að liggja inni var áfall út af fyrir sig – fyrir utan allt annað. „Þetta hefur á allan hátt verið galið ferðalag,“ segir hún og hristir höfuðið.

Hélt hún myndi halda fótunum

Fingur og nef jöfnuðu sig en tærnar voru dánar og fyrir lá að þær yrði að fjarlægja. Til að byrja með voru læknar þó bjartsýnir á að Hjördís myndi halda fótunum að öðru leyti. Fyrst var talað um að skrapa iljarnar og hælana en þegar á reyndi voru dauðir vefir ofar og á endanum þurfti að fjarlæga báða fætur hennar frá miðjum sköflungi. Það var gert um tveimur mánuðum eftir að hún veiktist. „Mér brá auðvitað þegar mér var sagt að taka hefði þurft meira af fótunum en til stóð í upphafi en áfallið kom þó ekki fyrr en löngu seinna. Ég var ennþá svo máttfarin og utan við sjálfa mig að ég gat ekki melt þessar upplýsingar að neinu gagni. Ég fékk smá sjokk en síðan fór allt í sama farið. Það var eiginlega ekki fyrr en síðasta haust að upp fyrir mér rann ljós: Djös, ég er búin að missa báða fæturna!“

Hún þagnar um stund.

„Líf mitt á þessum tíma stýrðist af kvíða, félagsfælni og áfallastreituröskun á háu stigi. Ég var lengi að vinna mig út úr þessu öllu saman og það var í raun ekki fyrr en síðasta haust að ég var orðin eðlileg á ný. Áfallið háir mér ekki lengur; ég kemst loksins aftur út úr húsi og er farin að taka þátt í samfélaginu. Er aftur lifandi.“

Hjördís var í þrjár vikur á gjörgæslu og lá samtals í sex mánuði á spítala. Smám saman hjarnaði líkaminn við. Hjördís líkir þessu við að vöðvarnir hafi verið frosnir og hún hafi hreinlega þurft að finna þá á ný. Til að bæta gráu ofan á svart urðu nýrun um tíma óstarfhæf og hún þurfti að fara í blóðskilun. Sem betur fer gekk það til baka. Þá þurfti hún í aðra aðgerð á vinstra fæti vorið 2012.

Hefði getað farið verr

„Þetta hefði getað farið verr; ég hefði getað misst fingurna og jafnvel nefið og það var alls ekki sjálfgefið að nýrun færu að starfa á ný. Margir sem veikjast svona alvarlega hreinlega deyja, þannig að ég er mjög þakklát fyrir að hafa komist í gegnum þessi veikindi án meiri varanlegs skaða. Eftir á að hyggja má segja að ég hafi verið heppin – en auðvitað leið mér ekki þannig meðan ég var að ná vopnum mínum á ný á spítalanum. Það var ofboðslega erfiður tími.“

Líkaminn er eitt, sálin annað, og Hjördís viðurkennir að hafa gengið í gegnum sterkar tilfinningar. Spurð hvort hún hafi verið lokuð manneskja fyrir áfallið svarar hún: „Já, frekar. Erum við það ekki öll, Íslendingar? Við erum ekki gefin fyrir að tala mikið um tilfinningar okkar.“

Hún brosir.

„Auk þess að vera frekar lokuð að upplagi hef ég alltaf annað slagið þjáðst af kvíða og félagsfælni. Ég segi ekki að það hafi verið stórt vandamál fyrir en þetta magnaðist allt upp eftir veikindin. Svona mikið kraftleysi kemur niður á manni, að ekki sé talað um óöryggið sem fylgir því að geta ekki lengur stigið fram úr rúminu. Ég datt einu sinni inni á baði á spítalanum og komst ekki upp aftur. Ég var ekki með bjöllu, eins og við rúmið, og það nægði til þess að ég fór í panikástand. Það var ekki fyrr en ég áttaði mig á því að ég gæti hringt úr farsímanum mínum að ég gat greitt úr flækjunni. Ég get brosað að þessu í dag en þetta var hræðileg tilfinning þegar það gerðist.“

Erfitt að treysta öðrum

Raunar leið henni löngum stundum eins og að hún væri föst í eigin líkama og átti erfitt með að treysta sjálfri sér, eins og hún var orðin, og öðrum, sem þó voru allir af vilja gerðir til að hjálpa henni. „Ég var með mikla innilokunarkennd til að byrja með. Það lagaðist smám saman; því betri sem líkaminn varð, þeim mun brattari varð hugurinn.“

Eins góð og aðhlynningin var líkamlega var minna unnið með andlega þáttinn á spítalanum. Hjördísi var boðin sálfræðiaðstoð en fann fljótt að það virkaði ekki fyrir hana. Hins vegar talaði hún við Rósu Kristjánsdóttur, djákna og hjúkrunarfræðing, og hafði mun meira gagn af þeim samtölum. „Við Rósa töluðum saman reglulega í um tvö ár og það hjálpaði mér mjög mikið. Hún hjálpaði mér til dæmis að tala við börnin mín þegar fæturnir voru teknir af mér. Dásamleg kona, Rósa.“

Það var ekki bara Hjördís sjálf. Fjölskyldan öll var í áfalli, börnin Ástrós Helga, Ragnheiður Ír og Mikael Árni, sem voru ellefu, sex og fjögurra ára á þessum tíma, foreldrar hennar, Árni Steingrímsson og Steinunn Sigurðardóttir, systkinin þrjú, Sigurður Ragnar, Auður og Árni Haukur, og aðrir aðstandendur. „Ég fer á nokkrum klukkustundum frá því að vera fullfrísk yfir í að vera við dauðans dyr. Það segir sig sjálft að það var mikið áfall fyrir mína nánustu. Og öfugt við mig fengu þau enga faglega aðstoð; enga áfallahjálp, þurftu bara að vinna úr þessu sjálf. Það gleymist stundum hversu mikið áfall svona alvarleg veikindi eru fyrir nánustu aðstandendur. Vissulega höfðu þau heimt mig úr helju en á sama tíma gerðu allir sér grein fyrir því að mikil barátta væri fram undan,“ segir Hjördís.

Það var ekki fyrr en að Hjördís ræddi við fjölskylduráðgjafa að fjölskyldan fékk aðstoð. „Ég þurfti með öðrum orðum að fara út fyrir kerfið, sem er umhugsunarvert.“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Hjördís á spítalanum ásamt börnum sínum. Þau eru Ragnheiður Ír, …
Hjördís á spítalanum ásamt börnum sínum. Þau eru Ragnheiður Ír, Mikael Árni og Ástrós Helga.
Drep kom í fætur Hjördísar eftir veikindin.
Drep kom í fætur Hjördísar eftir veikindin.
Hjördís stígur sandölduna á bretti í eyðimörkinni í Marokkó um …
Hjördís stígur sandölduna á bretti í eyðimörkinni í Marokkó um síðustu áramót. Picasa
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »