Gul viðvörun á morgun

Veðurstofan varar við hríðarveðri annað kvöld.
Veðurstofan varar við hríðarveðri annað kvöld. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í gildi vegna hríðarveðurs annað kvöld á Suðurlandi, Vesturlandi og Suðvesturlandi. Samkvæmt Veðurstofu Íslands mun á morgun ganga í suðaustan 15-23 m/s undir kvöldið með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu á láglendi. Búast má við erfiðum akstursskilyrðum vegna takmarkaðs skyggnis og snjó- eða krapaþekju.

Sérstaklega er varað við erfiðum akstursskilyrðum í uppsveitum og á heiðavegum, meðal annars á Hellisheiði, Bröttubrekku og Vatnaleið.

Búast má við því að úrkoman verði að rigningu þegar komið er nálægt sjávarmáli.

Á höfuðborgarsvæðinu er yfir daginn á morgun gert ráð fyrir suðvestan 5-10 m/s, éljum og hita við frostmark. Eykur í vind þegar líður á daginn og sem fyrr segir má búast við um og yfir 20 m/s um kvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert