Kennarar bera kerfið uppi

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir þrátt fyrir að um 90% barna líði vel þá sé depurð að aukast, ekki síst meðal ungra stúlkna, líkt og fram kemur í nýrri rannsókn á líðan grunnskólabarna.

Hún segir stjórnvöld hafa áhyggjur af þessari þróun og þetta sé meðal þess sem rætt verður á nýjum samráðsvettvangi varðandi líðan barna á vegum félags-, mennta- og heilbrigðisráðherra. Þar verður skoðað nánar hvaða áhrif til að mynda tækninýjungar hafa á skjátíma og samfélagsmiðlanotkun barna og unglinga.

Heilsa og lífskjör skólanema á Íslandi voru rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í gær.

Lilja segir að þessi þróun sé svipuð og í öðrum löndum en hér á Íslandi séu ýmis sóknarfæri vegna þess hversu mörgum líður vel. Á sama tíma verði að huga vel að þeim sem ekki líður vel og styðja þá.

„Við ætlum að vinna betur með rannsakendum og fara í nánari rannsókn á líðan barna og ungmenna,“ segir Lilja og bætir við að það verði að reyna að ná utan um þennan hóp sem er í hættu á að glíma til að mynda við geðraskanir eða fíkn.

„Sum ríki hafa kortlagt þennan hóp, það er áhættuhópinn, og gripið til aðgerða til þess að aðstoða þennan hóp,“ segir Lilja en samráðsvettvanginum er ætlað að ná utan um þennan hóp til þess að koma ungu fólki til aðstoðar sem þarf á slíkri hjálp að halda.

Hún segir að á sama tíma þurfi að fylgjast með þeim breytingum og framförum sem eru að eiga sér stað í taugavísindum þar sem rannsakað er hvaða áhrif mikil skjánotkun hefur á heilann og almennt heilbrigði svo ekki sé talað um mennta- og félagslega stöðu þeirra.

Að sögn Lilju er verið að skoða hvað sé til af rannsóknum og hvað þurfi að bæta á því sviði til þess að tryggja að íslenskar rannsóknir séu samanburðarhæfar alþjóðlega.

Rannsóknin sýnir að það er gott samband milli kennara og nemenda og að sögn Lilju eru kennarar algjör grunnur að góðu menntakerfi. Líkt og fram hefur komið er kennarastéttin að eldast á Íslandi og eins hefur brottfall verið áberandi úr stéttinni einkum vegna mikils álags í starfi. 

Lilja segir að fleiri lönd glími við sama vandamál og af Norðurlöndunum séu Finnar eina þjóðin sem þar er undanskilin.

„Hvað höfum við? 90% nemenda líður vel en við verðum að taka á þeim sem gerir það ekki og depurð er vaxandi vandamál. Þau bera mikið traust til kennarans sem segir okkur sem samfélagi að þarna er auðlind sem við verðum að rækta og við þurfum að gæta að því að hlúa að kennurum,“ segir Lilja en undanfarið hefur hún átt fundi með kennurum og öðrum sem koma að menntamálum á Íslandi. Eitt af því sem þar hefur ítekað komið fram er mikið álag á kennara.

Að sögn Lilju er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld og Samtök sveitarfélaga að koma til móts við kennara og grípa til aðgerða til að minnka þetta álag.

Hún segir að fyrstu árin í skólagöngu barna skipti svo miklu máli og þar séu kennarar mikilvægur hlekkur í að styrkja börnin.

„Öll fjárfesting sem á sér stað á fyrstu skólaárum margborgar sig. Þetta gera Finnar og yfirvöld í Singapúr. Í stað þess að fara í einhverja plástra síðar meir. Eitthvað sem getur komið í veg fyrir harmleik heillar fjölskyldu þegar einhver innan hennar fer út af sporinu. Harmleikur sem aldrei verður mældur til fjár. Það er miklu skynsamlegra að leggja aukna áherslu á snemmtæka íhlutun. Við sjáum það að strax í lok leikskólans eru vísbendingar um framhaldið. Hvernig börnum muni reiða af í skólakerfinu og hver áhrif umhverfisins eru. Við verðum að hlúa vel að menntakerfinu og sérstaklega kennurum það eru þeir sem bera það uppi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert