Gripinn með góss í Leifsstöð

Maðurinn var stöðvaður af lögreglu í flugstöðinni vegna gruns um …
Maðurinn var stöðvaður af lögreglu í flugstöðinni vegna gruns um að hann hefði látið greipa sópar í fríhöfninni, sem reyndist rétt. mbl.is/Eggert

Erlendur karlmaður var stöðvaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðastliðinn sunnudag vegna gruns um að hann hefði látið greipar sópa í fríhöfninni. Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn, sem átti bókað flug til London, og flutti hann á lögreglustöð.

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum kemur fram að ýmis varningur sem talinn var vera þýfi hafi fundist í stórri íþróttatösku sem hann hafði meðferðis. Í töskunni mátti meðal annars finna átta karton af Marlboro-sígarettum, átta ilmvatnsglös, tvenn Bose quiet 35 ll heyrnartól og Hugo Boss-fatnað. Verðmæti varningsins er rúmlega 245 þúsund krónur.

Við skýrslutöku á lögreglustöðinni í Keflavik neitaði maðurinn öllum sakargiftum í fyrstu en kvaðst hafa keypt varninginn. Síðar í vikunni var svo tekin önnur skýrsla af honum og þá játaði hann þjófnaðinn á ofangreindum munum.

mbl.is