Stormur og snjókoma í kvöld

Vindaspá fyrir kvöldið.
Vindaspá fyrir kvöldið. Kort/Veðurstofa Íslands

Dagurinn byrjar á klassísku vetrarveðri, suðvestanátt og éljum um landið sunnan- og vestanvert, en víða léttskýjað fyrir austan og frost um allt land. Upp úr hádegi dregur þó heldur úr vindi og éljum.

Um kvöldmatarleytið koma skil upp að landinu suðvestanverðu með suðaustanhvassviðri eða -stormi og snjókomu, en síðar slyddu og rigningu á láglendi og hlýnandi veðri.

Gular viðvaranir eru í gildi í nokkra klukkutíma í kvöld vegna hríðarveðurs suðvestanlands og á Breiðafirði. Þær viðvaranir eiga einkum við um heiðar og uppsveitir, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Eftir snjókomu gærdagsins og áframhaldandi éljagang í dag eru líkur á að eitthvað af snjónum muni bráðna í kvöld þegar hlýnar, en á morgun kólnar aftur og er því viðbúið að svell myndist. 

Á morgun lægir víða og á þriðjudag og miðvikudag er útlit fyrir kalt hæglætisveður um allt land með éljum á víð og dreif, segir enn fremur á vef Veðurstofu Íslands.

Gul viðvörun er á Faxaflóa, Breiðafirði og Suðurlandi fyrir kvöldið.

Á Suðurlandi gildir viðvörunin frá klukkan 18 til klukkan 22. Suðaustan 15-20 m/s. Snjókoma eða slydda, en úrkoma færir sig yfir í rigningu nærri sjávarmáli og hlýnar. Erfið akstursskilyrði vegna takmarkaðs skyggnis og snjó- eða krapaþekju, sér í lagi í uppsveitum og á heiðavegum, t.d. Hellisheiði.

Á Faxaflóa gildir viðvörunin frá klukkan 19 til 22. Suðaustan 15-23 m/s. Snjókoma eða slydda, en úrkoma færir sig yfir í rigningu nærri sjávarmáli og hlýnar. Erfið akstursskilyrði vegna takmarkaðs skyggnis og snjóþekju, sér í lagi í uppsveitum og á heiðavegum, t.d. Bröttubrekku.

Á Breiðafirði gildir viðvörunin einnig frá 19 til 22. Suðaustan 15-23 m/s. Snjókoma eða slydda, en úrkoma færir sig yfir í rigningu nærri sjávarmáli og hlýnar. Erfið akstursskilyrði vegna takmarkaðs skyggnis og snjóþekju, sér í lagi á heiðavegum, t.d. Vatnaleið.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðvestan 10-15 m/s með morgninum og él, en léttskýjað austan til. Frost 0 til 7 stig. 
Hægari vindur og styttir upp eftir hádegi, en gengur í suðaustan 15-23 m/s sunnan- og vestanlands undir kvöld með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu á láglendi. Hlýnar tímabundið.
Dregur úr vindi í nótt, suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s á morgun og él, einkum sunnanlands. Kólnandi veður, frost 0 til 5 stig síðdegis. Bætir í vind syðst annað kvöld.

Á mánudag:

Suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og él, einkum S-lands. Sunnan 13-18 austast á landinu í fyrstu og rigning. Kólnandi veður, frost 0 til 5 stig um kvöldið. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Hæg breytileg átt og bjart með köflum, en él á stöku stað. Frost 1 til 10 stig. 

Á fimmtudag:
Gengur í suðaustan 8-15 m/s, en suðvestlægari vindur undir kvöld. Víða snjókoma eða slydda, en rigning með suðurströndinni. Minnkandi frost á landinu og hlánar syðst. 

Á föstudag:
Snýst í norðlæga átt með snjókomu um landið norðan- og austanvert. Hægari vindur sunnan heiða og léttir til. Hiti um eða rétt undir frostmarki. 

Á laugardag:
Útlit fyrir minnkandi norðanátt og él norðanlands, en bjart fyrir sunnan. Kólnar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert