Þrír í haldi vegna líkamsárásar

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan handtók þrjá menn í Hafnarfirðinum á níunda tímanum í gærkvöldi vegna líkamsárásar, vopnaburðar og vörslu fíkniefna. Mikið álag var á lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt vegna ölvunar og eru allar fangageymslur fullar eftir nóttina.

Um kvöldmatarleytið þurfti lögregla að fjarlægja mann af veitingastað í miðbænum og vista hann í fangaklefa vegna ástands mannsins. Um klukkan 22 þurfti að fjarlægja annan mann af veitingastað í miðbænum þar sem hann var að áreita gesti staðarins. Sá gistir einnig fangageymslur lögreglunnar.

Í nótt var síðan maður í annarlegu ástandi handtekinn í hverfi 110 þar sem hann gerði tilraun til að ræna tösku af manni.

Skömmu fyrir klukkan 20 var tilkynnt um árekstur í miðbænum og skemmdust bifreiðarnar lítillega en engin slys urðu á fólki.

Um klukkan 23 var maður fluttur á bráðamóttökuna með sjúkrabifreið eftir að hafa dottið en talið er að hann hafi fótbrotnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert