Tvær rútur lentu utan vegar

Björgunarsveitin Kyndill var kölluð til vegna slyssins.
Björgunarsveitin Kyndill var kölluð til vegna slyssins. mbl.is/Eggert

Tvær rút­ur hafa farið út af veg­in­um á Kjal­ar­nesi síðustu klukku­stund­ina. Búið er að loka veg­in­um um Kjal­ar­nes en ekk­ert ferðaveður er á þeim slóðum.

Vettvangsliðar á vegum björgunarsveitarinnar á Kjalarnesi voru kallaðir út strax eftir fyrra slysið og sinna þeir fyrsta viðbragði á staðnum. Þá var björgunarsveitin Kyndill í Mosfellsbæ einnig ræst út. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að Kyndill muni flytja farþega rútunnar í skjól, en þeir eru nú á leið á vettvang.

Uppfært kl. 19:24: Samkvæmt slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu lítur út fyrir að aðeins sé um minni háttar meiðsl að ræða hjá þeim sem slösuðust. Rútan fór út af veginum og lagðist á hliðina.

Slæmt veður er á svæðinu og hefur Vegagerðin meðal annars lokað veginum um Kjalarnes. Mælist þar 18 m/s og 24 m/s í hviðum. 

Uppfært kl. 19:43: Önnur rúta lenti utan vegar á Kjalarnesi. Sú fyrri var á veginum norður af Grundarhverfi en hin nær Hvalfjarðargöngum. Tíu farþegar voru í seinni rútunni. Enginn slasaðist alvarlega og farþegar bíða þess að þeir verði sóttir.

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að fólkið sem var í rútunum hafi verið flutt áleiðis til Reykjavíkur til aðhlynningar. Þrír fengu minni háttar áverka, en enginn slasast alvarlega. Segir að aðstæður á vettvangi séu erfiðar, enda slæmt veður, hálka og lítið skyggni. Vesturlandsvegur er lokaður á milli Esjumela og Hvalfjarðarganga.

Uppfært kl 20:05: Samkvæmt lögreglu voru 27 í fyrri rútunni og 11 í þeirri seinni. Voru farþegarnir erlendir ferðamenn frá Bretlandi og Bandaríkjunum og voru þeir fluttir í fjöldahjálparmiðstöð í Varmárskóla, utan fjögurra sem voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Talið er að meiðsli þeirra séu minni háttar. Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins var virkjuð vegna óhappsins. 

Vesturlandsvegur er lokaður á milli Mosfellsbæjar, við Þingvallaveg, og Hvalfjarðarganga og verður svo eitthvað áfram.

Veginum upp á Kjalarnes hefur verið lokað.
Veginum upp á Kjalarnes hefur verið lokað. mbl.is/Eggert
mbl.is