Bílbelti og líknarbelgir björguðu

Fólkið var flutt í fjöldahjálparstöð í Mosfellsbæ.
Fólkið var flutt í fjöldahjálparstöð í Mosfellsbæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan segir að bílbelti og líknarbelgir hafi bjargað ökumönnum tveggja bifreiða sem lentu í árekstri á Korpúlfsstaðavegi frá teljandi meiðslum. 

Áreksturinn varð klukkan 18:39 en mjög slæmt veður var á þeim tíma. Báðar bifreiðarnar voru nokkuð skemmdar og leikur grunur á að önnur bifreiðin hafi verið illa búin til vetraraksturs.

Bifreið var ekið á ljósastaur á Bústaðavegi um klukkan 19 en ekki urðu meiðsl á fólki. Bifreiðin var aftur á móti óökuhæf. Um svipað leyti var ekið aftan á bifreið á Breiðholtsbraut og var um minni háttar meiðsl að ræða.

Líkt og fram hefur komið valt rúta með um það bil 30 farþegum á Vesturlandsvegi við Kjalarnes klukkan 18:37 og skömmu síðar var tilkynnt um bifreið með 10 farþegum sem hafði fokið út af Vesturlandsvegi skammt sunnan við Hvalfjarðarveg. Björgunarsveit og lögregla voru send á staðinn en engir meiddust.

Þetta er aðeins lítill hluti þeirra verkefna sem lögreglan hefur sinnt frá því klukkan 17 í gær en vaktaskipti eru hjá lögreglunni klukkan 19 um helgar og því vildi svo vel til að nánast tvöfaldur mannskapur fór út til þess að sinna verkefnum í tengslum við umferðaróhöppin á Vesturlandsvegi og önnur verkefni sem komu upp á svipuðum tíma. Þrátt fyrir nánast tvöfaldan mannskap þurfti að forgangsraða verkefnum þegar mest var að gera, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

mbl.is