Dæmdur fyrir ítrekuð umferðarlagabrot

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og svipt hann ökurétti í fimm ár vegna umferðarlagabrota. Ákæran er í þrettán liðum.

Brotin áttu sér stað frá 30. maí 2017 til 21. september 2018. Öll tengdust þau akstri hans undir áhrifum ávana- og fíkniefna og voru öll brotin nema eitt framin á höfuðborgarsvæðinu.

Maðurinn sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall.

Í ákærunni var krafist upptöku fíkniefna. Fram kemur í dóminum að í ákærunni komi hins vegar ekkert fram um að ákært sé fyrir vörslur fíkniefna og því var kröfu um upptöku fíkniefna vísað frá dómi.

mbl.is