Kynna nýtt skipulag Héðinsreits

Hugsanleg götumynd framtíðarinnar við Ánanaust, verði deiliskipulagstillagan að veruleika í …
Hugsanleg götumynd framtíðarinnar við Ánanaust, verði deiliskipulagstillagan að veruleika í óbreyttri mynd. Teikning/Teikn arkitektaþjónusta & Jvantspijker

Allt að 330 íbúðir og 230 hótelherbergi eða hótelíbúðir verða á svokölluðum Héðinsreit í miðborg Reykjavíkur, samkvæmt nýrri deiliskipulagstillögu sem er á leið í kynningu. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti að auglýsa skipulagið á fundi sínum í síðustu viku.

Héðinsreitur er kenndur við Héðinshús, sem stendur við Seljaveg 2 og hýsir í dag meðal annars Reykjavíkurapótek, en var byggt á árunum 1941-1943 undir Vélsmiðjuna Héðin.

Lóðin Vesturgata 64 er einnig á Héðinsreit, en þessar tvær lóðir eru nú skipulagðar saman og hafa arkitektastofurnar Jvantspijker í Hollandi og Teikn arkitektaþjónusta unnið að nýju deiliskipulagi í sameiningu undanfarin tvö ár. Gildandi deiliskipulag á reitnum er frá 2007.

Héðinsreitur er á einum eftirsóttasta byggingarstað landsins og hefur að …
Héðinsreitur er á einum eftirsóttasta byggingarstað landsins og hefur að miklu leyti staðið auður í lengri tíma. mbl.is/Styrmir Kári
Gert er ráð fyrir allt að 330 íbúðum og 230 …
Gert er ráð fyrir allt að 330 íbúðum og 230 hótelherbergjum á Héðinsreit, auk verslunar og þjónustu á jarðhæðum, samkvæmt nýrri deiliskipulagstillögu. Teikning/Teikn arkitektaþjónusta & Jvantspijker

Arkitektar Teikn starfa fyrir félögin Seljaveg og S2 Norður, sem eiga lóðina að Seljavegi 2, en Jvantspijker fyrir fasteignaþróunarfélagið Festi og Mannverk, sem eiga Vesturgötu 64. Við Seljaveg 2 verður hótel Center Hotel, auk um 100 íbúða, en um 230 íbúðir á lóð Vesturgötu 64. Ítarlega var fjallað um áform Festar á þeirri lóð í Morgunblaðinu í lok nóvember sl.

Samkvæmt deiliskipulagstillögunni verða bakhús við Seljaveg 2 rifin og þétt randbyggð byggð á öllum reitnum, stórgerðari hús niðri við Ánanaust en skali bygginganna verður öllu minni við Seljaveg og Vesturgötu.

Inngarðar reitsins verða öllum opnir, samkvæmt deiliskipulagstillögunni sem brátt fer …
Inngarðar reitsins verða öllum opnir, samkvæmt deiliskipulagstillögunni sem brátt fer í formlega kynningu. Teikning/Teikn arkitektaþjónusta & Jvantspijker
Svona sjá arkitektar fyrir sér að Mýrargatan gæti litið út. …
Svona sjá arkitektar fyrir sér að Mýrargatan gæti litið út. Héðinshús við Seljaveg er við enda húsaraðarinnar. Teikning/Teikn arkitektaþjónusta & Jvantspijker

Inngarðar hugsaðir sem almenningsreitir

Þrír inngarðar verða á reitnum samkvæmt skipulaginu og verða þeir opnir almenningi, en áætlað er að þrjár gönguleiðir gangi í gegnum reitinn. Sérstaklega var tekið fram í bókun meirihluta borgarráðs síðasta fimmtudag að þarna væri verið að gera „nýja almenningsgarða á besta stað í Reykjavík“.

Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, hafði þó efasemdir um inngarðana hvað birtumagn varðar, en fram kom í bókun hennar frá fundinum að hún hefði áhyggjur af því að skuggasvæðin í þessum görðum verði slík að erfitt verði fyrir plöntur og gróður að þrífast.

Hér sjást gönguleiðirnar sem gert er ráð fyrir í gegnum …
Hér sjást gönguleiðirnar sem gert er ráð fyrir í gegnum reitinn. Inngarðarnir eiga að verða öllum opnir og einnig með aðgengi fyrir viðbragðsaðila á borð við slökkvilið. Teikn­ing/​Teikn arki­tektaþjón­usta & Jvantspijker
Teikning/Teikn arkitektaþjónusta & Jvantspijker

Þjónusta á jarðhæðum

Bílastæðakjallari er fyrirhugaður undir stórum hluta lóðarinnar, með á fjórða hundrað bílastæðum, en í tillögunni kemur fram að gert sé ráð fyrir sameiginlegri aðkomu beggja lóða að þessum bílastæðakjallara við Vesturgötu.

Áætlað er að þessi neðanjarðarstæði verði í einhverri samnýtingu íbúa á reitnum og þeirra sem koma þangað keyrandi til þess að sækja þjónustu, sem verður víða á jarðhæðum húsanna, samkvæmt skipulagstillögunni.

Tillagan verður sem áður segir tekin til formlegrar kynningar á næstunni, en þá hafa hagsmunaaðilar og aðrir sex vikur til þess að koma með ábendingar og athugasemdir.

mbl.is

Bloggað um fréttina