Kynna tillögur í húsnæðismálum á morgun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hóf almennar stjórnmálaumræður á Alþingi þegar þingið kom aftur saman eftir jólafrí. Forystumenn stjórnamálaflokkanna taka þátt í umræðunum. Katrín fjallaði í ræðu sinni um stöðuna á vinnumarkaði og endurskoðun stjórnarskrár.

Hún sagði stjórnvöld undanfarið hafa unnið mikið starf í því að styrkja samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og fjórtándi fundur milli aðila fari fram á morgun þar sem kynntar verða niðurstöður átakshóps um húsnæðismál. Sagði hún að hópurinn ætli að vinna tillögur að lausn á framboðsvanda á húsnæðismarkaði, réttindum leigjenda og innkomu fyrstu fasteignakaupenda.

„Það er forgangsmál að búa við öryggi og fyrirsjáanleika í húsnæðismálum,“ sagði Katrín í ræðu sinni og bætti við að ljóst væri að þörf sé á fimm til átta þúsund íbúðum á markað. „Við þurfum að taka höndum saman og leysa þennan vanda. Tryggja viðráðanlegt húsnæði fyrir okkur öll,“ sagði Katrín og bætti við að hún vonist til að breytingar stjórnvalda á skattkerfinu og húsnæðismálum verði til þess að hægt verði að lenda kjarasamningum með farsælum hætti á vinnumarkaði.

Um endurskoðun stjórnarskrár sagði Katrín að níu fundir hafi farið fram um endurskoðun stjórnarskrárinnar þar sem helst hafi verið til umfjöllunar hvernig viðfangsefnin verði tekin fyrir og hvernig vinnu við endurskoðunina verður háttað.

„Ég tel vinnuna hafa gengið vel,“ sagði Katrín en endurskoðuninni er ætlað að fara fram á þessu kjörtímabili og því næsta. Hún lagði áherslu á að formenn flokkanna og þeir sem kæmu að vinnunni taki þátt í henni af fullri alvöru.

mbl.is

Bloggað um fréttina