Ólafur og Karl fengu ekki ræðutíma

Ólafur Ísleifsson í ræðustól í dag.
Ólafur Ísleifsson í ræðustól í dag. mbl.is/​Hari

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, óháðir þingmenn sem vikið var úr þingflokki Flokks fólksins í kjölfar Klausturmálsins, gagnrýndu forseta Alþingis við upphaf þingfundar í dag. Allir forystumenn þingflokka á Alþingi taka þátt í almennum stjórnmálaumræðum en óháðu þingmennirnir tveir fá ekki að taka þátt í umræðunum.

„Þetta er óboðlegt,“ sagði Karl Gauti í ræðustól. Hann sagði þá Ólaf hafa tilkynnt þingforseta í desemberbyrjun að þeir hygðust starfa utan flokka og hafa með sér samstarf, og óskuðu þeir eftir því að tillit yrði tekið til samstarfs þeirra.

Ólafur Ísleifsson steig í ræðustól á eftir Karli Gauta og lýsti yfir furðu sinni á að þeim hefði ekki verið úthlutað svo mikið sem einni mínútu í umræðum dagsins nema í andsvörum. „Af hálfu skrifstofu Alþingis var okkur boðið að halda fimm mínútna ræðu en svo bregður við skömmu áður en umræður hefjast og að fulltrúi okkar yrði ekki á mælendaskrá,“ sagði Ólafur.

Steingrímur J. Sigfússon þingforseti sagði að honum hefðu engar óskir borist um þátttöku þingmannanna óháðu áður en gengið var frá samkomulagi vegna umræðna dagsins. 

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Samsett mynd
mbl.is

Bloggað um fréttina