Skuldir lækkað um 660 milljarða frá 2013

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu skuldir ríkissjóðs um 90 milljarða og frá ársbyrjun 2013 hafa skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður um 660 milljarða. Á þetta benti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi í dag en hún tók til máls fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.

Af þeim sökum verða vaxtagjöld á komandi ári um 34 milljörðum lægri en árið 2012 sem jafngildir 20% af öllum greiddum tekjuskatti árið 2018. Segir hún eitt meginverkefna ríkisstjórnarinnar „að sjá til þess að aðgerðir séu ekki aðeins til skammtímaávinnings heldur til framtíðar“ og þar skipti lækkun skulda ríkissjóðs höfuðmáli auk stofnunar þjóðarsjóðs sem fjármagnaður verði með tekjum af orkuauðlindum og er ætlað að styrkja getu ríkissjóðs til að bregðast við áföllum.

Hún sagði í ræðu sinni að skuldastaða ríkissjóðs væri ekki áþreifanleg landsmönnum en væru skattar á framtíðina. Í tvennum fjárlögum núverandi ríkisstjórnar hafi 80 milljörðum verið varið til innviða og samfélagslegra verkefna sem almenningur finni fyrir með áþreifanlegum hætti. „Þetta er hægt núna eftir grundvöllinn sem lagður var árin á undan,“ sagði Þórdís og nefndi átak í vegaframkvæmdum, hækkun barnabóta og vaxtabóta, aukin framlög til löggæslu- og heilbrigðismála, verndun íslenskrar tungu, stuðning við rannsókn og þróun og innviðauppbyggingu á ferðamannastöðum.

„Samhliða auknum útgjöldum hefur tryggingargjald lækkað og persónuafsláttur hækkað umfram verðlag. Þannig mætast ólíkar áherslur um aukin útgjöld og lægri skatta. Það segir sig sjálft að við getum ekki sett fé í verkefni og lækkað skatta nema tvennt komi til. Að einkaframtakið búi við hagfelld skilyrði til að skapa verðmæti og stækka kökuna til skiptana, og að við séum tilbúin að lækka útgjöld á einhverjum sviðum í stað þess að beita okkur eingöngu fyrir sífelldum hækkunum á öllum sviðum,“ segir Þórdís.

Þórdís sagði að af fenginni reynslu hverfi launahækkanir sem atvinnulífið getur ekki staðið undir jafnskjótt í verðbólgu. „Á undanförnum árum hefur gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustu átt drjúgan þátt í að halda aftur af verðbólgu með því að styðja við gengi krónunnar. Núna hefur hann minnkað verulega og varnarveggurinn gegn verðbólgu er ekki lengur til staðar í sama mæli. Staðan er því viðkvæmari en áður og það skiptir máli, og er í allra þágu, að verja árangurinn sem náðst hefur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina