„Taka því rólega og gefa sér tíma“

Kona skefur snjó af bíl sínum.
Kona skefur snjó af bíl sínum. mbl.is/Eggert

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í morgun hefur gengið hægt en vel. Fólk hefur tekið mið af aðstæðum en éljagangur hefur verið af og til.

Að sögn Ómars Smára Ármannssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns gekk síðasta vika vel í umferðinni. Sex slösuðust í fimm umferðarslysum og voru þau öll minni háttar. Mest var um aftanákeyrslur að ræða. Fólk var því að keyra varlega og brýnir Ómar fyrir fólki að halda því áfram. Engin slys hafa orðið í morgun.

Svipuðu veðri er spáð út vikuna með hálku inni á milli. „Það er um að gera að taka því rólega og gefa sér tíma,“ segir hann.

Ómar ráðleggur fólki að fara ekki á göturnar á sumardekkjum eða aka um á slæmum hjólbörðum því þá getur farið illa ef stöðva þarf bifreiðarnar skyndilega.

Aðspurður segir hann færðina svipaða í efri byggðum og til að mynda í miðbæ Reykjavíkur. Búið var að ryðja allar stofnbrautir snemma í morgun en eitthvað gæti þurft að ryðja í íbúðahverfum í dag.

mbl.is/Eggert
mbl.is