Þýðir ekki að opna fyrr en það er öruggt

Tvær rútur með samtals 41 farþega innanborðs fóru út af …
Tvær rútur með samtals 41 farþega innanborðs fóru út af veginum á Kjalarnesi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegagerðin gefur lítið fyrir þá gagnrýni að hún sé of lengi að kanna aðstæður eftir að vegum er lokað. Löng röð myndaðist við vegalokun á Þjóðvegi 1 við gatnamót Þingvallavegar í gær þegar veginum um Kjalarnes var lokað en tvær rútur fóru þar út af um kvöldmatarleytið.

„Menn eru á tánum við þetta þegar svona ástand er. Það þýðir ekki að opna fyrr en það er öruggt,“ segir G. Pét­ur Matth­ías­son, upp­lýs­inga­full­trúi Vega­gerðar­inn­ar, í samtali við mbl.is.

Einn þeirra sem beið eftir að vegurinn opnaði í gær ræddi við mbl.is og sagði að veðrið væri stillt, einungis væri smá slabb á veginum, og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hleypa umferð um Kjalarnes.

Löng bílalest myndaðist þegar fólk beið eftir því að vegurinn …
Löng bílalest myndaðist þegar fólk beið eftir því að vegurinn um Kjalarnes opnaði aftur í gærkvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Pétur segir að þrátt fyrir að aðstæður líti vel út fyrir utan svæðið sjálft, eins og í gær, sé ekki þar með sagt að það sama megi segja um lokunarsvæðið. Betra sé að gæta fyllsta öryggis.

„Það er samt skiljanlega leiðinlegt fyrir fólk að bíða þegar það lítur út eins og það sé ekkert að veðrinu þar sem það er,“ segir Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert