Vilja að Hagfræðistofnun dragi skýrslu til baka

Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Stjórn Landverndar skorar á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að draga til baka skýrslu sína um þjóðhags­leg áhrif hval­veiða sem unn­in var fyr­ir at­vinnu­vegaráðuneytið. Telur Landvernd rétt að vinna skýrsluna upp á nýtt í samráði við vistfræðinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Landvernd segir þær forsendur sem skýrsluhöfundar gefi sér í útreikningum sínum vera af vistfræðilegum toga og þar með langt utan hennar fagsviðs. Þá telur hún fráleitt að spyrða saman náttúruverndarsamtök og hryðjuverk almennt, en í skýrslunni (á blaðsíðu 42) seg­ir meðal ann­ars að ef til vill sé til­efni til að setja lög hér á landi til að „vinna gegn upp­gangi hryðju­verka­sam­taka“. Hefur þetta orðalag meðal annars verið gagnrýnt af forsætisráðherra. 

Segir Landvernd að raunveruleg hryðjuverk beinist að því að drepa almenna borgara í þágu tiltekins málstaðar, en barátta náttúruverndarsamtaka sé friðsamleg. 

Í fréttum RÚV á laugardaginn var haft eftir Sigurði Jóhannessyni, forstöðumanni Hagfræðistofnunar, að það væri oftúlkun að náttúruverndarsamtöku séu kölluð hryðjuverkasamtök. Sagði hann að þar væri talað um Sea Shepard og að hryðjuverkahugtakið ætti ekki við um samtök eins og Landvernd. Þá sagði hann einnig að samstarf hefði verið haft við Gísla Víkingsson, sem er aðalhvalasérfræðingur  Hafrannsóknastofnunar, við gerð skýrslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert