58 gistu 624 nætur í neyðarskýlum

Konukot við Eskihlíð.
Konukot við Eskihlíð. mbl.is/RAX

Alls dvöldu 58 einstaklingar með lögheimili utan Reykjavíkur 624 gistinætur í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar á síðasta ári.

Frá Garðabæ gistu tveir einstaklingar í Gistiskýli að Lindargötu í þrettán nætur og tveir einstaklingar í Konukoti í sjö nætur, að því er kom fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar í morgun.

Á fundi velferðarráðs í nóvember í fyrra var samþykkt að heimila sviðsstjóra að setja gjaldskrá, 17.500 krónur á nóttina, fyrir gistingu í skýlunum fyrir íbúa annarra sveitarfélaga en Reykjavíkur. Verðið byggir á rekstrarkostnaði neyðarskýlanna tveggja og tók gjaldskráin gildi í lok janúar síðastliðins.

Fram kemur í fundargerð að óskað hafi verið eftir samstarfi við Garðabæ um greiðslur fyrir árið 2019.

Reykjavík rekur tvö neyðargistiskýli fyrir húsnæðislausa einstaklinga. Gistiskýli að Lindargötu er ætlað húsnæðislausum karlmönnum og Konukot, sem er rekið í samstarfi við Rauða krossinn í Reykjavík, er ætlað konum. Einnig er í undirbúningi að setja á laggirnar þriðja neyðarskýlið við Grandagarð í Reykjavík sem verður ætlað ungum karlmönnum sem eiga í verulegum vímuefnavanda.

mbl.is