Lægðardrag væntanlegt

Kort/Veðurstofa Íslands

Vetrarlegt er um að litast á snævi þöktu landinu, sem ætti ekki að koma á óvart í lok janúarmánaðar. Veðurspár hafi verið nokkuð flöktandi undanfarið, en þær gera þó ekki ráð fyrir neinum hlýindakafla á næstunni, segir á vef Veðurstofu Íslands

Fremur hægir vestanvindar með éljum og frosti í dag, en úrkomulítið á Norðurlandi, hægari vindar á morgun, birtir víða til, en áfram kalt í veðri. Á fimmtudag gengur lægðardrag upp að landinu og fer þá að snjóa, fyrst sunnan og vestan til og hlýnar heldur í bili.

Veðurspá fyrir næstu daga

Vestlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s og él víða um land, en úrkomulítið á Norðurlandi. Minnkandi éljaloft seint í dag.
Norðvestan 8-13 og él úti við A-ströndina á morgun, annars yfirleitt hægviðri og bjart, en él á stöku stað við sjávarsíðuna. Frost 1 til 13 stig, kaldast inn til landsins.

Á miðvikudag:
Breytileg átt, 3-8 m/s og víða bjartviðri, en stöku él við ströndina. Frost 2 til 16 stig, kaldast inn til landsins á N- og A-landi. 

Á fimmtudag:
Gengur í austan og suðaustan 13-20 m/s með slyddu eða snjókomu, en suðvestlægari og rigning eða slydda við S-ströndina upp úr hádegi. Hiti 0 til 6 stig. Hægari suðlæg átt með éljum um kvöldið og kólnar. 

Á föstudag:
Snýst í ákveðna norðaustanátt með snjókomu, en rofar til sunnan heiða. Harðnandi frost. 

Á laugardag:
Útlit fyrir norðanhvassviðri með éljagangi, en mun hægara og yfirleitt bjartviðri V-til. Talsvert frost um allt land. 

Á sunnudag:
Hægviðri, léttskýjað og hörkufrost, en vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa S- og V-lands um kvöldið. 

Á mánudag:
Breytilegar áttir, snjókoma eða él um land allt og áfram kalt í veðri.

mbl.is