Leiguverð hækkaði um 46% á Suðurnesjum

Leiguverð hækkaði mest á Suðurnesjum, 8,3% milli 2017 og 2018. …
Leiguverð hækkaði mest á Suðurnesjum, 8,3% milli 2017 og 2018. Kaupverð hækkaði um 5,4%.

„Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í desember og hafði þá hækkað um 7,8% frá desember 2017. Á sama tíma hafði verð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu einungis hækkað um 5,5%,“ segir í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Breytingar milli áranna 2017 og 2018 sýna að leiguverð hækkaði meira en kaupverð, hið fyrrnefnda hækkaði um 8,3% á meðan það síðarnefnda hækkaði um 5,4%.

Ólík þróun á landinu

Leiguverð á hvern fermetra er almennt hærra fyrir tveggja herbergja íbúðir en þriggja, nema á Akureyri. Munur á leiguverði tveggja og þriggja herbergja íbúða var mestur á Suðurnesjum og á Suðurlandi, 30%. Að meðaltali var þessi munur hins vegar 20%.

Þegar leiguverð í desember 2017 er borið saman við leiguverð í desember 2018 sést 7,8% hækkun. Mesta breytingin var á leiguverði tveggja herbergja íbúða á Suðurnesjum, en það hækkaði um 46% á þessum tíma.

Hins vegar varð 12% lækkun leiguverðs þriggja herbergja íbúða á Suðurlandi og 6% lækkun leiguverðs tveggja herbergja íbúða í vesturhluta Reykjavíkur og á Akureyri.

Kaupverð hækkað meira en leiguverð

Ef litið er aftur til ársins 2011 hefur leiguverð hækkað um 77,2% og kaupverð um 95,5%. Þá var meðalhækkun leiguverðs milli ára 8,8%, en meðalhækkun kaupverðs 10,1%.

Sagt er frá því að mikill munur sé á leiguverði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess, en hæsta leiguverðið fyrir tveggja herbergja íbúð var í Breiðholti og hæsta leiguverð þriggja herbergja íbúðar var í austurhluta Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert