Reyndi að komast undan lögreglu

Í bifreiðinni fundust meint fíkniefni auk þess sem grunur var …
Í bifreiðinni fundust meint fíkniefni auk þess sem grunur var um fíkniefnaakstur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði á dögunum ökumann sem grunaður er um vímuefnaakstur. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu, gaf í og reyndi að komast undan. Veita þurfti honum eftirför alllanga vegalengd áður en bifreiðin hafnaði á umferðarmerki með þeim afleiðingum að afturhjól hennar brotnaði af henni. Karlmaður og kona voru í bílnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum sem hefur síðustu daga tekið nokkra ökumenn úr umferð vegna gruns um fíkniefnaakstur.

Þar segir enn fremur að maðurinn hafi verið sviptur ökuréttindum ævilangt en konan hafði aldrei öðlast slík réttindi. 

Í bifreiðinni fundust meint fíkniefni auk þess sem grunur var um fíkniefnaakstur. Þá fundust ýmsir munir sem taldir eru vera þýfi, en fólkið hefur komið við sögu lögreglu að undanförnu vegna slíkra mála.  

Annar ökumaður, sem stöðvaður var í morgun vegna gruns um fíkniefnaakstur, reyndist ekki vera með ökuréttindi í lagi og sá þriðji ók sviptur ökuréttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert