Reyndi að losa sig við búslóð á víðavangi

Ökumanninum var tjáð að stranglega bannað væri að losa sig …
Ökumanninum var tjáð að stranglega bannað væri að losa sig við rusl með þessum hætti. mbl.is/Arnþór Birkisson

Lögreglan á Suðurnesjum fékk ábendingu frá athugulum vegfaranda á dögunum sem hafði komið auga á bifreið með kerru hlaðna búslóð sem ekið var eftir vegaslóða í átt að Vogum.

Lögreglan ákvað að kanna málið og þegar á staðinn var komið hafði kerran verið tæmd og búslóðinni komið fyrir á víðavangi. Ökumaðurinn viðurkenndi að hafa ætlað að losa sig við búslóðina með þessum hætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Ökumanninum var tjáð að stranglega bannað væri að losa sig við rusl með þessum hætti, auk þess sem það stæði greinilega á skilti við innakstur á vegslóðann.

Honum var gert að koma búslóðinni aftur fyrir á kerrunni og fara með hana í sorpeyðingarstöðina Kölku.

mbl.is