„Risastórt skref í átt að lausn kjaradeilunnar“

Ragnar Þór Ingólfsson fagnar tillögum átakshóps um aukið framboð á …
Ragnar Þór Ingólfsson fagnar tillögum átakshóps um aukið framboð á íbúðum. Haraldur Jónasson/Hari

„Ef það tekst að framkvæma þessar hugmyndir eða bróðurpartinn af þeim þá mun það vera risastórt skref í átt að lausn kjaradeilunnar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um tillögur átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta húsnæðismarkaðinn.

Ragnar Þór var hluti af starfshópnum sem vann að tillögunum. Hann er ánægður með að aðilar úr öllum áttum náðu saman um þessar aðgerðir en nú þarf að hrinda þeim í framkvæmd. „Ég myndi segja að ef allir þeir aðilar sem komu að þessari vinnu, sveitarfélögin, ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins  gátu komið sér saman um þessar aðgerðir þá þarf núna bara standa við það og láta verkin tala.“

Raunverulegar breytingar á húsnæðismarkaði til framtíðar

Hann telur einnig að ef tillögurnar verða framkvæmdar muni það hafa mikil áhrif á húsnæðisvandann bæði til skemmri og lengri tíma. „Við erum þá að fara að sjá hérna raunverulegar breytingar á húsnæðismarkaði til framtíðar bæði hvað varðar skammtímaúrræði til að mæta bráðavandanum og raunveruleg úrræði til að verja fólk betur á leigumarkaði. Raunverulegar aðgerðir til að skapa hér langtímahúsnæðismarkað, fjölbreyttan og heilbrigðan húsnæðismarkað, sem verður til þess hér að bæta lífskjör almennt til lengri tíma.“ 

Meðal tillagna hópsins er að leita leiða til þess að lækka bygg­ing­ar­kostnað og stytta bygg­ing­ar­tíma, meðal ann­ars með stór­auk­inni sam­vinnu stjórn­valda og annarra sem koma að skipu­lags-, bygg­ing­ar- og hús­næðismál­um.

Kynning á vinnu átakshóps stjórnvalda um húsnæðismál í Hannesarholti í …
Kynning á vinnu átakshóps stjórnvalda um húsnæðismál í Hannesarholti í dag. Haraldur Jónasson/Hari

Í tengsl­um við vinnu átaks­hóps­ins var unn­in grein­ing á þörf fyr­ir íbúðir á landsvísu, út frá þróun lýðfræðilegra þátta, mann­fjölda, ald­urs­sam­setn­ingu og sam­setn­ingu heim­ila, auk fjölda íbúða sem eru ekki í hefðbund­inni notk­un sem íbúðar­hús­næði.

Sam­kvæmt þess­ari grein­ingu er óupp­fyllt íbúðaþörf nú á bil­inu 5.000-8.000 íbúðir á land­inu öllu. Mik­il upp­bygg­ing er fyr­ir­huguð á næstu árum, eða 10.000 íbúðir á ár­un­um 2019-2021. 

Spurður hvort ríkisstjórnin þurfi ekki að fara sem fyrst í að ýta eftir frekari framkvæmdum kveðst Ragnar vona að það verði gert. „Jú og bara styðja okkur í verkalýðsfélögunum í að byggja upp þessi félög sem við erum með á teikniborðinu til að leysa þennan uppsafnaða vanda.“

Nánari útfærslur á tillögum hópsins sem eru í fylgiskjölum verða gerð opinber bráðlega að sögn Ragnars sem ítrekar að lokum ánægju með vinnu hópsins. „Ég er mjög sáttur með þessa vinnu og við erum það öll sem störfum innan hreyfingarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert