Stal úr söluvagni flugfreyju

mbl.is/​Hari

Erlendur karlmaður var gripinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær með snjallúr og rakspíra, sem hann var grunaður um að hafa tekið ófrjálsri hendi í fríhöfninni. Nam verðmæti varningsins tæpum 54 þúsund krónum.

Fyrst í stað þrætti maðurinn fyrir að hafa stolið mununum og sagðist hafa keypt þá annars staðar.  Hann sá þó síðar að sér og játaði stuldinn. Kvaðst hann sjá verulega eftir öllu saman og lofaði bót og betrun, að því er segir í dagbók lögreglunnar á Suðurnesjum.

Þá höfðu lögreglumenn úr flugstöðvardeild lögreglunnar einnig afskipti af flugfarþega sem hafði hagað sér dónalega í flugi og reynt að stela varningi úr söluvagni flugfreyju. Var maðurinn ölvaður og ræddu lögreglumenn við hann á varðstofu.

Loks var tilkynnt um ölvaðan farþega sem hafði brugðist illa við þegar honum var meinað að fara með flugi til Dublin. Var hann einnig tekinn tali og róaðist hann fljótlega eftir spjallið við lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert