Undir áhrifum á flótta frá lögreglu

Skjáskot úr myndskeiðinu

Karlmaður á fertugsaldri sem var handtekinn á stolnum bíl á Viðarhöfða síðastliðinn fimmtudag að lokinni eftirför lögreglu er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda.

Hann var tekinn í skýrslutöku daginn eftir og látinn laus í kjölfarið. Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu játaði hann að hafa ekið undir áhrifum og án ökuréttinda. Hann hefur oft áður komið við sögu lögreglunnar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu á Facebook á föstudaginn vegna handtöku mannsins að lokinni eftirför lögreglu.

mbl.is/Eggert

„Stolna bifreiðin sem lögreglan lýsti eftir í gær er fundin, en svo var ekki síst árvekni borgara fyrir að þakka. Sá tilkynnti um bifreiðina í austurborginni, en ökumaður hennar var ekkert á þeim buxunum að stöðva för sína þegar lögreglumenn komu á vettvang og ók rakleiðis áfram. Úr varð stutt eftirför uns bílþjófurinn nam staðar, en þá reyndi hann að komast undan á tveimur jafnfljótum og síðan að fela sig undir annarri bifreið skammt frá. Þar var maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð, en þess má geta að hann hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.“

Rúnar Ben Maitsland, eigandi Bóns hágæðabóns við Viðarhöfða, birti á Facebook-síðu sinni myndskeið úr öryggismyndavél sinni og er það birt með góðfúslegu leyfi hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina