Vilja lagalega „handbremsu“ á olíuleit

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. mbl.is/Eggert

Allar hugmyndir um frekari olíuleit við Íslandsstrendur verða frystar þar til sigur hefur unnist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum, samkvæmt nýju frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi, af fjórum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en Andrés Ingi Jónsson er fyrsti flutningsmaður þess.

Um er að ræða frumvarp um breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis og felast lagabreytingarnar í því að ekki verði hægt að afgreiða leyfi fyrir olíuleit né rannsóknir og vinnslu, „nema uppsöfnun koldíoxíðs í andrúmslofti hafi mælst undir 350 ppm að meðaltali hvern undangenginna tólf mánaða,“ sem síðast gerðist árið 1987, samkvæmt greinargerð með frumvarpinu.

Andrés Ingi segir á Facebook-síðu sinni að lagatæknilega sé þetta einföld leið til þess að setja inn „ótímabundna handbremsu“ í stað þess að „plokka í sundur“ þá tíu lagabálka sem snerta málaflokkinn.

„Viðmiðunarmörkin munu væntanlega ekki nást næstu áratugina. Ákvörðunin verður þannig sett í hendur komandi kynslóða, frekar en [að] við sem höldum um stjórnartaumana í dag ákveðum að skila Jörðinni í enn verra ástandi til þeirra,“ skrifar Andrés Ingi.

Ríki heims eru á þeirri sameiginlegu vegferð að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og þurfa að beita til þess ýmsum ráðum, jafnt með aðgerðum sem taka á eftirspurn og framboði. Ísland kennir sig gjarnan við umhverfisvernd og endurnýjanlega orkugjafa og telur sig til forysturíkja á heimsvísu að því leyti. Verði þetta frumvarp að lögum verður Ísland ekki fyrsta ríkið til að taka þetta skref en meðal þeirra fyrstu og sýnir þannig gott fordæmi. Sú ábyrga afstaða mundi gera landinu kleift að standa undir nafni sem framsækið land í loftslagsmálum,“ segir í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert