676 milljónir króna í geymslu

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Rúmlega 676 milljónir króna skal leggja inn á bankareikning og geyma þar uns skorið verður úr um það í dómsmálum hvort krafa Íslandsbanka til fjárins sé á rökum reist. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar í máli sem snýst um fjárkröfu bankans á hendur Héðinsreits ehf. sem naut veðréttinda í fasteigninni Vesturgötu 64 í Reykjavík á grundvelli tryggingabréfa.

Fasteignin var seld á nauðungaruppboði að kröfu Reykjavíkurborgar vegna vangoldinna fasteignagjalda og lýsti Íslandsbanki kröfu sinni við nauðungarsöluna. Fjárkröfu bankans má rekja til láns sem Byr sparisjóður veitti Héðinsreit ehf. á grundvelli fjármögnunarsamnings gegn áðurnefndum veðrétti í fasteigninni.

Fjármögnunarsamningnum var síðar rift af sparisjóðnum og hafði Héðinsreitur ehf. fengið skaðabótaskyldu hans vegna riftunarinnar viðurkennda fyrir dómi. Taldi félagið sig eiga kröfu til skuldajafnaðar við kröfu Íslandsbanka sem tekið hafði við lánamálinu.

Tvö önnur mál eru í gangi á milli Héðinsreits ehf. og Íslandsbanka. Annars vegar þar sem Íslandsbanki krefur Héðinsreit ehf. um greiðslu samkvæmt lánasamningnum og hins vegar um skaðabótakröfu félagsins við slit sparisjóðsins. Fyrra málinu hefur verið frestað þar til niðurstaðan liggur fyrir í því síðara. Auk Héðinsreits ehf. er félagið Erill ehf. aðili að málinu vegna kröfu þess í uppboðsandvirði fasteignarinnar að Vesturgötu 64.

mbl.is