Allt að 14 stiga frost

Það er óneitanlega vetrarlegt um að litast í höfuðborginni þessa …
Það er óneitanlega vetrarlegt um að litast í höfuðborginni þessa dagana. mbl.is/Hari

Hið fegursta vetrarveður á snævi þöktu landinu í dag en él á víð og dreif og frost að 14 stigum inn til landsins. Dregur úr éljum þegar líður að kvöldi en gengur í norðankalda og fer að snjóa norðaustanlands.

Á morgun nálgast lægð sunnan úr hafi og skil hennar ganga inn á land. Hvessir þá af suðaustri og fer að snjóa, fyrst sunnan- og vestanlands, en síðar einnig fyrir norðan og austan. Lægðinni fylgir hlýtt loft, sem hækkar hita upp fyrir frostmark, þ.a. blotar við suðurströndina. Hlýindin standa stutt því á föstudag snýst í norðaustanátt með snjókomu eða éljum og kólnar aftur í veðri, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Hæg vestlæg eða breytileg átt og él víða um land, en norðvestan 8-10 m/s og fer að snjóa austan til með kvöldinu. Frost 2 til 15 stig, kaldast inn til landsins.

Gengur í suðaustan 10-18 með snjókomu sunnan- og vestanlands á morgun, en slyddu eða rigningu við sjávarsíðuna. Hvessir einnig og snjóar á Norður- og Austurlandi um kvöldið en lægir þá jafnframt suðvestan til með skúra- eða éljalofti. Hlýnar á morgun og hiti yfirleitt 0 til 5 stig síðdegis.

Á fimmtudag:

Gengur í austan og suðaustan 10-18 m/s með snjókomu í flestum landshlutum, en slyddu og síðar rigningu við S- og SA-ströndina. Snýst í suðvestan 8-15 með éljum síðdegis, fyrst SV-til. Frost yfirleitt 1 til 6 stig en hlánar syðst um tíma að deginum. 

Á föstudag:
Norðaustan 10-15 m/s og snjókoma eða él N- og A-lands, en hægara og bjart SV-til, en él undir kvöld. Frost 0 til 8 stig, minnst syðst. 

Á laugardag:
Norðan 3-8 m/s og bjartviðri en 8-15 og snjókoma með köflum austast fram eftir degi. Talsvert frost um allt land. 

Á sunnudag:
Hægviðri, léttskýjað og hörkufrost framan af degi, en síðan vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa S- og V-lands undir kvöld og hlýnar í bili. 

Á mánudag:
Útlit fyrir suðvestanhvassviðri með éljagangi, en hægara og þurrt eystra. Áfram kalt í veðri. 

Á þriðjudag:
Snýst líklega í stífa norðanátt með ofankomu NV-til, en annars hægara og bjart, en kalt veður.

Upplýsingar um færð á vegum

Höfuðborgarsvæðið: Hálka og éljagangur eru á stofnbrautum.

Suðvesturland:  Hálka eða snjóþekja og éljagangur eru á flest öllum leiðum. Þæfingsfærð og él eru á Mosfellsheiði, í Kjósarskarði og í Hvalfirði. Unnið er að mokstri.

Vesturland: Víðast hvar hálka eða snjóþekja og snjókoma eða éljagangur víða. Þæfingur er m.a. í Staðarsveit.  

Vestfirðir: Snjóþekja og hálka á vegum og eitthvað um þæfing á suðurfjörðunum og á Ströndum. Þungfært er norður í Árneshrepp.

Norðurland: Hálka víðast hvar en snjóþekja á útvegum. 

Norðausturland: Hálka og snjóþekja eru á flest öllum vegum.  

Austurland: Snjóþekja eða hálka víðast hvar. 

Suðausturland: Víðast hvar hálka eða snjóþekja.

Suðurland: Hálka eða snjóþekja á flestum vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert