Innherjinn kveðst „japanskur í hugsun“

Kristján Georg Jósteinsson (t.v.) ásamt verjanda sínum í héraðsdómi í …
Kristján Georg Jósteinsson (t.v.) ásamt verjanda sínum í héraðsdómi í morgun, en Kjartan Jónsson situr fyrir miðri mynd við borðið. mbl.is/Eggert

Nú hafa tveir sakborningar af þremur lokið við að gefa skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem fram fer aðalmeðferð í innherjasvikamáli, tengdum viðskiptum með afleiður, sem byggðust á hlutabréfaverði í Icelandair Group.

Kjartan Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfisstjórnunar hjá Icelandair, er ákærður fyrir innherjasvik, en hann er sagður hafa veitt æskuvini sínum úr Ölduselsskóla, Kristjáni Georg Jósteinssyni, sem einnig er ákærður fyrir innherjasvik, upplýsingar um fjárhagsstöðu Icelandair, sem Kristján hagnýtti sér í viðskiptum sem hann átti fyrir hönd félags í hans eigu.

Þeir eru sagðir hafa hagnast sameiginlega á viðskiptunum, í ákæru málsins, en nú gefur skýrslu Kjartan Bergur Jónsson, þriðji sakborningurinn, sem ákærður er fyrir hlutdeild í innherjasvikum fyrir að hafa hagnýtt sér upplýsingar um Icelandair sem Kristján Georg deildi áfram.

Kjartan byrjaði á því að lýsa sjálfum sér og sínum högum við upphaf skýrslugjafarinnar. Hann er íslenskufræðingur og tók sérstaklega fram að hann hefði stúderað hjá Eiríki Rögnvaldssyni við Háskóla Íslands. Síðar fór hann til náms í Kína og svo til Japans, þar sem hann lærði iðnaðarverkfræði. Til Íslands kom hann aftur árið 2004 og fékk vinnu hjá Icelandair, þar sem hann var svo hækkaður upp í stöðu leiðarkerfisstjóra árið 2007.

„Ég hef alltaf litið á mig sem venjulegan launamann, með ágætar tekjur,“ sagði Kjartan dóminum og bætti við að hann hefði verið þarna í starfi, að gera sitt besta, hefði unnið mikið og ferðast mikið. Árin 2011 til 2017 voru góð hjá Icelandair, sagði Kjartan, sem sjálfur keypti hlutabréf í Icelandair árið 2012.

Honum datt ekki í hug að hreyfa þau, því hann var að eigin sögn orðinn „svo japanskur í hugsun“ sem hann útskýrði sem svo að í Japan væri fólk tryggt sínu fyrirtæki og tengdist vinnuveitendum sínum sterkum böndum.

Eftir að þetta mál sem nú er til aðalmeðferðar kom upp, var gerður starfslokasamningur við Kjartan. Hann segist vera „búinn á flugmarkaðnum“ alþjóðlega vegna þessa máls og að hann eigi ekki möguleika að fá annað starf hjá stórfyrirtæki hérlendis. Þá sagði hann það hafa verið andlega erfitt að takast á við málið síðustu 19 mánuði, meðal annars vegna fjölmiðlaumfjöllunar og vinamissis.

Meðal annars greindi Kjartan frá því að búið væri að „henda“ sér úr golfhópi sem hann hefði verið í, auk þess sem hann kæmi úr mennta- og listamannafjölskyldu, þar sem enginn annar í jólaboðunum hefði verið ákærður fyrir glæpi.

Hann tók það sérstaklega fram að hann hefði aldrei skuldað pening, nema eitt sinn er hann tók íbúðalán, og ekki hugsað mikið um peninga almennt.

„Veraldleg gæði, svona stöff, hefur aldrei skipt mig neinu máli,“ sagði Kjartan.

Tekjuspá eða tekjustaða

Kjartan neitar sakargiftunum og segist ekki hafa veitt Kristjáni Georg neinar innherjaupplýsingar, eins og hann er sakaður um í þremur liðum, hvað varðar flutningatölur, bókunarflæði og upplýsingar um hverju mætti búast við í næstu uppgjörum félagsins. Þá er hann einnig sakaður um að hafa veitt Kristjáni Georg upplýsingar tengdar afkomuviðvörun Icelandair 1. febrúar 2017, áður en markaðurinn vissi af þeim. Þessar upplýsingar nýtti Kristján sér til að stunda afleiðuviðskipti, þar sem hann „veðjaði“ annaðhvort á að hlutabréf í Icelandair Group myndu hækka eða lækka.

Sem fruminnherji hjá Icelandair hafði Kjartan aðgang að ýmsum upplýsingum, sem meðal annars vörðuðu bókunarflæði félagsins. Það var meðal annars í hans verkahring að taka saman og senda út vikulega tölvupósta á lykilstarfsmenn og stjórnendur flugfélagsins um þá stöðu. Þetta gerði hann hvern einasta sunnudag og lýsir hann þessu sem einfaldri „copy/paste“-vinnu, þar sem hann tók upplýsingar úr kerfum flugfélagsins og sendi stjórnendum í tölvupósti.

Þennan vikulega tölvupóst kallar saksóknari tekjuspá, en Kjartan sagði að það væri ekki rétt hugtakanotkun, þar sem um væri að ræða tekjustöðu félagsins. Þessum upplýsingum er Kjartan meðal annars sakaður um að hafa deilt með Kristjáni Georg.

Finnur Þór Vilhjálmsson (t.h.) er saksóknari í málinu.
Finnur Þór Vilhjálmsson (t.h.) er saksóknari í málinu. mbl.is/Eggert

„Það eru að koma, koma svaka, svaka fínar tölur á föstudaginn maður,“ sagði Kristján Georg meðal annars eitt sinn í símtali við miðlara hjá Landsbankanum, en flutningatölur Icelandair eru kynntar mánaðarlega með tilkynningu til Kauphallar.

Hugfanginn af hlutabréfamörkuðum

Þegar Kristján Georg settist fyrir dóminn og gaf skýrslu, byrjaði hann á að lýsa afstöðu sinni til sakarefnisins, en hann segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá Kjartani varðandi stöðu mála hjá Icelandair.

Hann segist alltaf hafa verið „hugfanginn af hlutabréfamörkuðum“ og „því hvernig mönnum tekst að eignast mikið fé“ með því að sýsla með hlutabréf. Ákvarðanir sínar í þeim viðskiptum hafi hann þó tekið sjálfstætt.

Hann var að eigin sögn 17 eða 18 ára gamall þegar hann átti sín fyrstu viðskipti með hlutabréf og hefur alltaf fjárfest þegar hann á fé aflögu. Hann lýsti hvernig hann hefði verið virkur í fjárfestingum í bæði „netbólunni“ og „bankabólunni“, en að þau ævintýri hefðu síðan „sprungið í andlitið“ á honum.

Vinur hans kynnti fyrir honum afleiðuviðskipti og hann steig inn í þau árið 2015 með viðskiptum í gegnum félag sitt, VIP Travel, hrifinn af þeirri gróðavon sem falist getur í slíkum viðskiptum. Hann var ákveðinn í að eiga viðskipti tengd hlutabréfaverði Icelandair Group.

Alls sagðist Kristján Georg hafa gert sextán slíka samninga og þeir hefðu gengið upp og niður, eins og hann lýsti fyrir dómi. Meðal annars segist hann á einum tímapunkti hafa gert samning sem að „fór mjög illa“ þar sem hann hefði tapað sjö milljónum eftir skatta, öllu sínu fé, og þurft að leita til vina og vandamanna til þess að geta staðið við kauptilboð á fasteign.

„Í heildina geri ég sextán viðskipti á einhverju 16-18 mánaða tímabili í Icelandair. Ég vildi útskýra alla þessa samninga því það er verið að draga hérna út og búa til einhverja sögu sem eru fjögur atriði,“ sagði Kristján Georg um ákæru héraðssaksóknara.

Skúli viðskiptamaður ársins = Ekki gott fyrir Icelandair

Hann sagðist aldrei hafa fengið neinar ráðleggingar frá Kjartani um hvað hann skyldi gera í þessum málum, en Kjartan var þó upplýstur um að Kristján væri að sýsla með hlutabréf í Icelandair, samkvæmt frásögn þeirra beggja fyrir dómi í morgun.

Ákvarðanirnar segist hann hafa tekið sjálfstætt, en hann tók bæði stöðu með og gegn hækkandi hlutabréfaverði í afleiðuviðskiptum sínum. Segist hann hafa byggt ákvarðanir sínar á fréttaflutningi og spám um fjölgun ferðamanna, meðal annars.

Þannig hafi hann tekið fjölda jákvæðra frétta af WOW air sem merki  um að nú væri mögulega að halla undan fæti hjá aðalkeppinautnum Icelandair og að næsta uppgjör yrði ekki gott.

„Skúli valinn viðskiptamaður ársins, greinilega að gera frábæra hluti og augljóslega finnst mér það ekki gott fyrir Icelandair,“ sagði Kristján meðal annars fyrir dómi.

Upplýsingar um fjölda fljúgandi Rússa

„Gögn málsins sýna meðal annars að Kjartan er farinn að senda þér upplýsingar um flutninga Icelandair á rússneskum ferðamönnum og annað svoleiðis,“ sagði Finnur Þór Vilhjálmsson við Kristján Georg, um samskipti sem voru þeirra á milli árið 2012, en tengjast ekki ákæru í þessu máli.

„Þetta er langt, langt, langt síðan,“ sagði Kristján Georg, en félag hans VIP Travel, sem heitir nú Fastrek, var að hans sögn stofnað til þess að þjónusta erlenda ferðamenn, aðallega Rússa, og gaf meðal annars út upplýsingabæklinga á rússnesku.

Nú er nýsestur fyrir dóminn Kjartan Bergur Jónsson, þriðji ákærði í málinu. Hann er vinur Kristjáns Georgs, en þekkir einungis lítillega til Kjartans Jónssonar. Dagskrá dagsins hefur riðlast töluvert, þar sem skýrslutökur yfir ákærðu, sér í lagi Kjartani Jónssyni, tóku lengri tíma en áætlað var.

Að lokinni skýrslutöku yfir Bergi verða vitni kölluð fyrir dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert