Ljóskastarahús úr seinni heimsstyrjöld friðlýst

Liðin tíð. Ljóskastarahúsið er mikilvæg heimild um hernámstímann.
Liðin tíð. Ljóskastarahúsið er mikilvæg heimild um hernámstímann. Ljósmynd/Minjastofnun

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að tillögu Minjastofnunar Íslands að friðlýsa ljóskastarahús við Urð á Suðurnesi á Seltjarnarnesi. Á heimasíðu Minjastofnunar segir að mannvirkið sé einstakt á Íslandi og mikilvæg heimild um hernámstímann og umsvif breska setuliðsins hér á landi.

Húsið var byggt utan um ljóskastara við upphaf seinni heimstyrjaldar, veturinn 1940-41. Húsið var hannað af Lloyd Benjamin, verkfræðingi breska setuliðsins. Sami höfundur teiknaði gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli, sem friðaður var af ráðherra árið 2011.

Ljóskastarinn var hluti af varnarbúnaði breska hersins við innsiglinguna að Reykjavík. Húsið tengdist herskálahverfi á Suðurnesi og er eina mannvirkið sem eftir er frá þeim tíma. Húsið er hið eina sinnar tegundar hér landi en vitað er um svipuð hús í Færeyjum, við Lossie í Skotlandi og í Ástralíu. Ekki hafa fundist nákvæmlega eins hús og því kann húsið við Urð að hafa fágætisgildi á heimsvísu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert