Reikningur barns tæmdur vegna mistaka

Rúmlega hundrað þúsund krónur skiluðu sér aftur til þriggja ára …
Rúmlega hundrað þúsund krónur skiluðu sér aftur til þriggja ára stúlku eftir að ungur strákur hafði samband við móður stúlkunnar og lét hana vita af undarlegri millifærslu af reikningi dóttur hennar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Solveig Rut Sigurðardóttir rak upp stór augu eftir að 18 ára drengur setti sig í samband við hana í gærkvöldi og upplýsti hana um að dóttir hennar hefði millifært á reikning hans rúmlega 100 þúsund krónur. Hann þóttist vita að mistök hefðu verið gerð og hafði því samband við foreldra stúlkunnar sem átti reikninginn sem millifært hafði verið af, enda stúlkan ekki nema þriggja ára.

Solveig kannaðist ekki við að hafa millifært af reikningi dóttur sinnar og þar að auki var um læstan framtíðarreikning að ræða. „Ég ákvað að athuga stöðuna í heimabankanum og sá þá að reikningurinn hennar var horfinn úr yfirlitinu mínu. Þegar ég hringdi svo í bankann í morgun þá spurði starfsmaðurinn mig hvort hún hefði örugglega verið með reikning í Íslandsbanka, nú eða hvort reikningurinn gæti kannski hafa verið á annarri kennitölu,“ skrifar Solveig. „Það var nefnilega enginn reikningur á hennar kennitölu og enga viðskiptasögu að finna hjá bankanum.“

Í samtali við mbl.is segir Solveig að hún hafi ekkert út á viðbrögð bankans að setja, þau hafi bæði verið hröð og góð. „Þau skildu ekkert í þessu og sögðu mér að það sé enginn reikningur á kennitölu dóttur minnar innan bankans, eins og það hafi aldrei verið til neinn reikningur,“ segir hún. Í kjölfarið gaf hún upp kennitölu drengsins sem sett hafði sig í samband við hana en allt kom fyrir ekki, sannarlega hafði upphæðin verið millifærð af reikningi dóttur hennar til stráksins. Segist hún hafa fengið þær skýringar frá bankanum að um mannleg mistök hefði verið að ræða.

„Þar sem viðskiptasaga barnsins hjá bankanum var orðin að engu gat bankinn ekki rakið hvert peningurinn hefði farið nema vegna þess að strákurinn gaf mér upp kennitöluna sína í gær og því var hægt að fletta viðkomandi upp í kerfinu og staðsetja peninginn,“ skrifar Solveig á Facebook.

Dóttir hennar er komin með nýjan reikning og peningurinn er kominn á sinn stað. „En þetta veldur mér samt hugarangri. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta hefði endað ef þessi heiðarlegi strákur hefði ekki hringt og látið okkur vita,“ skrifar hún á Facebook og segir í samtali við mbl.is að henni þyki mikið til heiðarleika stráksins koma og er honum afar þakklát.

„Þá hefði ég ekki haft neitt í höndunum sem sannaði stöðu reikningsins. Endilega kíkið á heimabankana ykkar og fylgist vel með,“ skrifar hún.

Haft var samband við upplýsingafulltrúa Íslandsbanka sem gat ekki veitt upplýsingar um málið að svo stöddu.

Uppfært kl. 23.04:

„Viðskiptavinur bað um að láta loka reikningi í bankanum og millifæra á annan reikning. Í því ferli áttu sér stað mannleg mistök þar sem vitlaust númer var slegið inn og því var röngum reikningi lokað. Við höfum haft samband við aðila málsins og þykir afskaplega leitt að þetta hafi gerst,“ segir í svari frá Íslandsbanka.   

mbl.is

Bloggað um fréttina