Stúdentar styðja BHM

Landssamtök íslenskra stúdenta lýsa yfir stuðningi við athugasemdir BHM við auglýsingu um ólaunað starfsnám í félagsmálaráðuneyti.

„Í stefnu LÍS um gæði í íslensku háskólasamfélagi, sem samþykkt var á landsþingi samtakanna 23. mars 2018, er það skýr krafa stúdenta að starfsnám sem fer fram í opinberum stofnunum eða fyrirtækjum sem rekin eru með hagnaðarsjónarmiðum skuli ávallt vera launað. Þá skuli tryggt að starfsnemi hljóti viðunandi laun í samræmi við kjarasamninga annarra starfsmanna á viðkomandi vinnustað með tilliti til ábyrgðar sem starfsnemi axlar.

Í stefnunni kemur einnig fram að jafnræðis skuli gætt þannig að starfsnemar njóti sömu launakjara fyrir sömu störf og að aldrei megi líta á starfsnema sem frítt vinnuafl. Jafnframt er þar greint frá áherslum stúdenta um nánari framkvæmd á undirbúningi og utanumhaldi starfsnáms til að gæta að gæðum þess.

Tilgangur starfsnáms er að gefa stúdentum tækifæri til að öðlast reynslu á vinnumarkaði í tengslum við nám sitt. LÍS vilja að háskólar leggi ríka áherslu á starfsnám stúdenta og undirbúning þeirra fyrir fjölbreytt og síbreytilegt atvinnulíf. LÍS gera þó kröfu um samræmd og vönduð vinnubrögð við ákvarðanatöku um starfsnám.

BHM og LÍS kölluðu eftir því, með bréfi til mennta- og menningarmálaráðuneytis þann 23. maí 2017, að settar yrðu skýrar reglur um starfsnám á háskólastigi þar sem þær eru ekki til staðar en einungis eru reglur um starfsnám á framhaldsskólastigi, sbr. reglugerð nr. 840/2011. Þetta tilvik undirstrikar brýna þörf á regluverki og betra utanumhaldi til að koma í veg fyrir allan vafa um starfsnám og tryggja stöðu stúdenta.

Viðbrögð Gissurar Péturssonar, ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti, í viðtali við RÚV sýna ennfremur nauðsyn þess, enda á reiki hvort þarna hafi verið um að ræða starfsnám sem metið er til eininga. Eins og fram kemur í fyrrnefndri stefnu LÍS er það sýn stúdenta að samningur eigi að liggja fyrir milli háskóla og starfsvettvangs þar sem kveðið er á um markmið starfsnáms, reynslu sem starfsnemi muni öðlast og hvernig starfsnám sé metið til eininga, áður en það hefst.

LÍS kalla aftur eftir því að vinna við gerð skýrra reglna um starfsnám á háskólastigi hefjist í mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við LÍS og BHM og einnig að háskólar á Íslandi semji skýra samninga um starfsnám með hagsmuni stúdenta að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingu frá Landssamtökum íslenskra stúdenta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert