Tjónvaldur í vímu og á vanbúnum bíl

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglunni var tilkynnt um umferðaróhapp á Seltjarnarnesi síðdegis í gær og að tjónvaldur hafi stungið af. Hann fannst skömmu síðar og er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Bifreið hans var einnig vanbúin til aksturs þar sem meðal annars hjólbarðar hennar voru ónýtir. 

Samkvæmt dagbók lögreglunnar var tilkynnt um óhappið klukkan 17:15 en bifreiðinni hafði verið ekið framan á ökukennslubifreið. 

Tjónvaldur mun hafa fengið höfuðhögg við óhappið og var hann færður á slysadeild til aðhlynningar. Þeir sem voru í hinni bifreiðinni, það er ökukennari og nemi hans, slösuðust ekki. Hvorug bifreiðin var aksturshæf og þær fluttar af vettvangi.

Um þrjú í nótt vistaði lögreglan ungan mann í fangageymslu sem ítrekað var búið að hafa afskipti af vegna ónæðis sem hann olli öðrum og þrátt fyrir afskipti lögreglu fór hann ekki að fyrirmælum lögreglu. Ungi maðurinn var í annarlegu ástandi.

Erlendur skipverji var einnig vistaður í fangageymslu lögreglunnar um svipað leyti en hann var ofurölvi og hafði verið með ónæði í Hafnarfjarðarhöfn.

Brotist var inn í bílasölu í hverfi 110 um kvöldmatarleytið. Ekki er vitað hverju var stolið, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar. 

Margir ökumenn létu ekki slæma færð á höfuðborgarsvæðinu stöðva sig þrátt fyrir að hafa neytt áfengis eða annarra vímuefna áður en lagt var af stað út í umferðina.

Síðdegis í gær voru tveir ökumenn stöðvaðir í Kópavogi og Breiðholti grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.  

Þrír ökumenn voru stöðvaðir í hinum ýmsu hverfum höfuðborgarsvæðisins í nótt og áttu þeir það allir sameiginlegt að vera undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra var ekki með ökuskírteinið á sér og annar er sviptur ökuréttindum en hefur ítrekað verið stöðvaður undir stýri bifreiðar. Einn var stöðvaður fyrir að akstur bifreiðar án þess að hafa nokkurn tíma fengið þau réttindi og einn var undir áhrifum áfengis.

Síðdegis í gær hafði lögregla síðan afskipti af ökumanni í hverfi 101 þar sem ökumaðurinn hafði ekki hreinsað snjó/hélu af rúðum ökutækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert