145 þúsund börn rohingja byrja í skóla

Í byrjun janúar hófu 145 þúsund börn rohingja skólagöngu í námsstöðvum UNICEF í flóttamannabúðunum Cox‘s Bazar í Bangladess. UNICEF greinir frá þessu í dag, í tilefni af alþjóðlegum degi menntunar. 

Börnin sem hefja nú nýtt skólaár hafa flúið ofbeldi og ofsóknir í heimalandi sínu og eru mörg þeirra að fara í skóla í fyrsta sinn. Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi, segir mikilvægt að huga að framtíð barnanna.

„Við höfum verið í nánu sambandi við samstarfsaðila í Bangladess og einnig hefur stjórnarformaður okkar, Erna Blöndal, farið á svæðið og séð aðstæður í flóttamannabúðunum, rétt eftir að þessi mikli flóttamannastraumur kom yfir landamærin í desember 2017. Nú er mikilvægt að huga að framtíð þessara barna með því að tryggja að þau fái menntun, af því það er óvíst hvenær þau geta snúið til baka,“ segir Steinunn. 

Um 1.600 námsmiðstöðvar settar á fót

Frá því í ágúst 2017 hafa yfir 730 þúsund rohingjar frá Rakhine-héraði í Mjanmar flúið yfir til Bangladess og eru 60% af þeim börn. Um 1.600 námsmiðstöðvar hafa verið settar upp í flóttamannabúðunum auk fjölda barnvænna svæða þar sem börn fá óformlega menntun, sálrænan stuðning og geta notið afþreyingar.

UNICEF á Íslandi stóð fyrir neyðarsöfnun fyrir rohingja í lok árs 2017 og framlög frá íslenskum almenningi nýttust í að veita börnum sem voru nýkomin í flóttamannabúðirnar lífsnauðsynlega hjálp. Framlög heimsforeldra hafa einnig runnið til neyðaraðgerða UNICEF fyrir börn á flótta frá Mjanmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert